144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

Haf- og vatnarannsóknir.

391. mál
[18:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að við nýju fiskeldislögin, sem við samþykktum hér á þingi síðastliðið vor, voru ákveðin verkefni færð frá Fiskistofu til Matvælastofnunar til einföldunar. Hugmyndin er sú að byggja upp öflugan grunn á Vestfjörðum, hjá Matvælastofnun, MAST, og þá ekki hjá Fiskistofu sem er þá meira í eftirlitinu. Það er búið að færa það til Matvælastofnunar í raun og veru og að einhverju leyti líka eftirlit sem Umhverfisstofnun hefur haft á sínum snærum. (Gripið fram í.) Til framtíðar verður það byggt upp þar. Nú þegar er kominn starfsmaður hjá Matvælastofnun, kom fyrr á þessu ári held ég, sem er í hlutastarfi, tæplega hálfu starfi, við fiskeldi og reyndar í öðru líka á Ísafirði, hugmyndin er að byggja þar upp áfram. Það eru í það minnsta þau sjónarmið sem sá ráðherra sem hér stendur hefur.

Varðandi rannsóknirnar sem væru augljóslega annars vegar hér hjá þessari nýju stofnun, ef af verður að hún verður að lögum, og hins vegar hjá náttúrustofnunum eða rannsóknasetrum Háskólans víða um land, tel ég — og það er mikill áhugi hjá Vestfirðingum, reyndar bæði á Norðurfjörðunum og Suðurfjörðunum, mismunandi sveitarfélögum — að þar verði komið upp öflugri rannsóknastöð. Ég tel að stofnun eins og þessi, af þessum burðum, sé lykilatriðið í að taka þátt í slíkri starfsemi. Það hefur auðvitað ekki verið planað, þetta verður sett í hendurnar á nýjum forstjóra til að setja það upp. En það er skoðun ráðherra að það sé skynsamleg ráðstöfun.