144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

Haf- og vatnarannsóknir.

391. mál
[18:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það má auðvitað segja að það séu ákveðin tímamót, kaflaskil, þegar hér kemur fram og á borð þingmanna frumvarp um að leggja Hafrannsóknastofnun niður og fella úr gildi lögin sem um hana hafa gilt í lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna allt frá 1965. Vissulega á önnur stofnun að koma í staðinn og að uppistöðu til sú sama, en engu að síður er þetta nú svo að þar með lýkur a.m.k. tilteknum kafla í sögu þessarar merku og mikilvægu stofnunar sem Hafrannsóknastofnun er.

Í staðinn á að koma, sbr. 1. gr. frumvarpsins og heiti þess, sjálfstæð rannsókna- og ráðgjafarstofnun sem á að heita Haf- og vatnarannsóknir. Ekki er það sérstaklega þjált, herra forseti, Hafrannsóknastofnun er ágætlega þjált nafn en engu að síður hafa menn gripið til þess ráðs að stytta það mjög gjarnan í daglegu tali niður í Hafró, þannig að ég veit ekki hvort þetta verður þá hafvaró, þ.e. haf og vatn og ró.

Ég verð að segja að ég er nokkuð hissa á því ef það er sem hæstv. ráðherra sagði að það hafi engar athugasemdir komið fram í vinnslu þessa frumvarps um inntak þess. Satt best að segja finnst mér það ákaflega fátæklegur lagarammi um jafn gríðarlega mikilvæga starfsemi og þarna á í hlut. Markmiðsgreinin er ekki löng. Þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið með lögum þessum er að efla vísindalega þekkingu á umhverfi og lifandi auðlindum í hafi og ferskvatni og stuðla í senn að sjálfbærri og arðbærri nýtingu auðlindanna.“

Punktur. Það er ekkert meira sagt um það.

Ég sé hvergi hér fjallað í raun og veru, nema í afar einföldum texta um samstarf við háskóla og rannsóknastofnanir, um þessa stofnun, hlutverk hennar og samskipti og landamæri við aðra aðila. Það vekur nokkra undrun. Ég hefði haldið að ef menn væru að leggja upp í þennan leiðangur á annað borð, að setja nýrri og enn þá stærri og mikilvægari stofnun á þessu sviði, ný heildarlög, væri lögð dálítið meiri vinna í að gera það, m.a. með ítarlegri markmiðsgrein, að fjalla þannig um samskipti þeirra við aðra aðila að það væri alveg skýrt hvar mörkin lægju og taka á ýmsum álitamálum sem óhjákvæmilega koma upp í þessum efnum.

Að sjálfsögðu eru ýmis gild rök fyrir því að þetta geti verið skynsamleg ráðstöfun, þ.e. að það er augljóst að talsvert af starfseminni á Hafrannsóknastofnun annars vegar og hjá Veiðimálastofnun hins vegar eru á sama eða mjög skyldu fræðasviði. Og Veiðimálastofnun, sem hefur verið litli bróðirinn í þessu, verður þá orðinn hluti af stærri og vonandi burðugri stofnun. Þó fer það svolítið eftir því hvernig verður gefið á jötuna. Það verður ekkert sérstakt kraftaverk með því að sameina tvær stofnanir sem báðar eru mjög aðþrengdar í fjárveitingum, ég tala nú ekki um ef það á þá að reyna að leysa þann fjárskort jafnvel með því að þvinga fram frekari hagræðingu og minnkun í mannahaldi í gegnum sameininguna. Því hljóta að vera takmörk sett hversu neðarlega menn geta þá farið með það. En vissulega sér maður ýmis rök, enda er hugmyndin ekki ný eins og hæstv. ráðherra benti á.

Hæstv. ráðherra vísaði talsvert í könnun sem hefði verið gerð á árinu 2009 á vegum þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. En sú könnun gekk eingöngu út á að kanna kosti og galla á sameiningu stofnana sem þá heyrðu undir það ráðuneyti, horfði ekki til víðari sjóndeildarhrings eða fleiri möguleika. Ráðherrann nefndi hins vegar ekki á nafn svo að ég heyrði þá skoðun sem fór fram á árinu 2011 í aðdraganda þess að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið varð til og umhverfis- og auðlindaráðuneytið varð til. Ætti þó hæstv. ráðherra að hafa greiðan aðgang að gögnum í báðum tilvikum því að hæstv. ráðherra fer með ráðuneyti í báðum ráðuneytum.

Þá var meðal annars og ekki síst starfsemi Veiðimálastofnunar skoðuð nokkuð rækilega. Það var í tengslum við greiningarvinnu sem átti sér stað til að fara yfir allar stofnanir og öll starfssvið sem tengdust annars vegar umhverfis- og auðlindamálunum og hins vegar atvinnu- og nýsköpunarmálum. Sú greining leiddi í ljós að Veiðimálastofnun var kannski meira hrein rannsóknastofnun en ýmsir höfðu jafnvel áttað sig á og þar á meðal sá sem hér talar. Langstærstur hluti af verkefnum hennar þótti þar af leiðandi liggja á því sviði sem eðlilegast væri að tilheyrði umhverfis- og auðlindaráðuneyti, þ.e. á sviði auðlindamálanna og auðlindaumsjár í þeim skilningi að stofnuninni væri best fyrir komið í hinu nýja umhverfis- og auðlindaráðuneyti, og talsvert mismunandi þættir í starfseminni þar höfðu talsvert ólíkt vægi á við það sem reynist vera og reyndist vera hjá Hafrannsóknastofnun.

Þetta voru meginrökin fyrir því að að endingu urðu menn sammála um að Veiðimálastofnun ætti vel heima ásamt með ýmsum systurstofnunum með mjög náskyld viðfangsefni, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands o.s.frv., undir umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og ég legg áherslu á auðlindahluta þess ráðuneytis. Það má líka nefna að Veiðimálastofnun hefur orðið að byggja starfsemi sína talsvert á sértekjum, þjónustu við veiðifélög o.s.frv., en sinnir síðan mjög víðtæku grunnrannsóknarhlutverki.

Rekstrarstaðan hefur verið og er þröng, eins og ég segi, og hæstv. ráðherra viðurkenndi það vissulega í máli sínu. Þannig hafa til dæmis fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar verið í mjög takmörkuðum mæli, sem hefur leitt til þess að stofnunin hefur neyðst til þess að draga talsvert úr starfsemi sinni og nánast ekki getað sinnt neinu nema hefðbundnum og reglubundnum rannsóknarleiðöngrum í þágu fiskveiðiráðgjafar og mælingar, og hefur meira að segja þurft að skrapa saman peningum og jafnvel eiginlega slá saman fyrir olíu til þess að hægt væri að fara í loðnumælingar og annað því um líkt sem hefur þó gríðarlegt þjóðhagslegt vægi.

Það er því alveg ljóst að við sameininguna sem slíka og ef maður horfir á stöðu Veiðimálastofnunar er hún ekki að fara inn í eitthvert nýtt umhverfi þar sem hún getur reiknað með að séu digrir sjóðir. Það er því miður ekki þannig. Hafrannsóknastofnun var fleytt áfram á erfiðustu árunum með því að veita mikla fjármuni úr verkefnasjóði sjávarútvegsins til hennar, en síðan hefur sá sjóður verið að þorna dálítið upp þannig að það hefur enn harðnað á dalnum. Þetta held ég að eigi að hafa í huga.

Ég er þar af leiðandi þeirrar skoðunar að það hefði alveg eins komið til greina að skoða sameiningu Veiðimálastofnunar, ef menn telja að það sé skynsamlegt að sameina hana öðrum aðila eða stærri aðila, við t.d. Náttúrufræðistofnun Íslands. Af hverju er ekki til samanburðar að minnsta kosti stillt upp kostunum, að hve miklu leyti liggja verkefni Veiðimálastofnunar mjög nálægt mörgu af því sem Náttúrufræðistofnun Íslands vinnur með og að hluta til Umhverfisstofnun á sviði grunnrannsókna og auðlindaumsjár, alveg eins og á sviði nýtingarinnar, sem væru auðvitað rökin fyrst og fremst fyrir því að hafa hana atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytismegin? Það er nýtingarráðuneyti, hitt er umhverfis- og auðlindaráðuneyti, og vinna var lögð í það á sínum tíma að byggja brýr á milli þessara ráðuneyta þannig að þessar tvær systur, vernd og nýting, gætu talast við á jafnræðisgrundvelli og átt þar saman.

Sumpart er uppsetningin á þessu tiltölulega hefðbundin, samanber ráðgjafarnefndina sem hér er. Að vísu á ráðherra sem fer með umhverfismál að fá að skipa einn mann inn í þessa stóru ráðgjafarnefnd en að öðru leyti er hún fyrst og fremst skipuð, fyrir utan fulltrúa atvinnuvegaráðherra sjálfs og menntamálaráðherra, af fulltrúum hagsmunaaðila. Þar koma til dæmis umhverfisverndarsamtök ekki að eða aðrir slíkir, þannig að verndarþátturinn, sjálfbærniþátturinn, auðlindaumsjárþátturinn, hann er mjög veikur í þessari framsetningu.

Ég get auðvitað ekkert varist því, herra forseti, ég nenni ekki að tala neina tæpitungu, að með þessu sé á vissan hátt verið að draga aftur úr vægi og stöðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem slíks, sem auðlindaráðuneytis ekki síður en umhverfisverndarráðuneytis, og vísa til þess sem ég sagði áður um það, m.a. að það hefði að mínu mati alveg eins mátt skoða sameiningu þessarar stofnunar við stofnanir undir umhverfisráðuneytinu.

Ég vek líka athygli á hlutverki haf- og vatnarannsóknanna, Haf- og vatnarannsókna. Ef það á að vera nafngift þá er orðið „stofnun“ horfið þar út og heitir fyrirbærið þá Haf- og vatnarannsóknir. Gott og vel. Þar er til dæmis í 15. lið sagt: „Að leggja mat á og veita ráðgjöf um verndargildi vistkerfa.“ Verndargildi vistkerfa? Er verndargildi vistkerfa komið inn í nýtingarráðuneyti? Hver samdi þetta? Misstu menn sig aðeins þarna, áttuðu sig ekki á því að þó að þetta sé ætlunin og tilgangurinn þá hefði verið skynsamlegt að þegja um þetta? Vegna þess að auðvitað er þarna alveg augljóslega verið að færa verkefni sem á að heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Verndargildi vistkerfa á ekki að vera á forræði nýtingarráðuneytisins eða stofnunar undir nýtingarráðuneytinu. Jú, að sjálfsögðu þarf sú stofnun að vera sér meðvituð um nútímann í umhverfismálum og hvað varðar sjálfbærni og allt það, af sjálfu leiðir, en mér finnst þetta dálítið sérkennilega orðað. Og „náttúruminja í ferskvatni og sjó“. Ég hélt að allt sem sneri að minjum væri komið til forsætisráðuneytisins, en það er önnur saga.

„Að miðla upplýsingum til stjórnvalda, hagsmunaaðila og almennings um sjálfbærar nytjar á íslensku hafsvæði, í ám og vötnum, greina frá niðurstöðum rannsóknastarfseminnar og veita aðgang að gögnum stofnunarinnar eftir því sem tök eru á.“ Fleira mætti til taka í þessum efnum, ég skal ekki tímans vegna dvelja lengur við það en ég tel að það þurfi, hver sem niðurstaðan verður, ætli menn að fara með þetta alla leið mæli ég með því að sú nefnd sem þarna vélar um þetta leggi svolitla vinnu í að skoða markmiðsgrein laganna og hlutverkalýsinguna í 5. gr. Ég tel að lágmark sé, af því að ég þykist vita að hæstv. ráðherra hafi viljað vísa þessu til atvinnuveganefndar eins og flestum lausum hlutum er vísað í dag, að umhverfis- og skipulagsnefnd fái líka að skoða þetta, m.a. út frá þeim sjónarmiðum að það þarf að fara yfir það.

Ég virði það auðvitað að hæstv. núverandi ríkisstjórn getur haft aðrar stefnur í þessum efnum og aðrar hugmyndir og það hefur hún augljóslega samanber það hvernig umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur pínulítið verið sett á kantinn og þá staðreynd að það var lagt af stað í þessa átt strax með forsetaúrskurði um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins, bakkað. Í þessum efnum er lagt af stað til baka til eldra fyrirkomulags. Maður veit stundum ekki alveg hver viðmiðunin er, hvort það eru 10 ár eða 50 ár aftur í tímann en til baka er það í öllu falli. Ég lít ekki svo á að þetta sé einhlítt mál, hvorki út frá beinlínis starfseminni sem þarna á í hlut og líklegum jákvæðum samlegðaráhrifum, sem að sjálfsögðu er hægt að binda vonir við að verði og margt vissulega mælir með, ég er alls ekki að hafna því og alls ekki að segja að þetta geti ekki verið ágætur kostur, en hann er ekki sjálfgefinn. Það gætu verið aðrir möguleikar í stöðunni sem fullt eins ætti að líta til. Mér finnst í öllu falli að einhver verði að taka hanskann upp fyrir þau sjónarmið sem snúa að verndar- og auðlindaumsjárhlutverkinu og grunnrannsóknum á sviði auðlinda. Ég vissi ekki til þess að þær hefðu enn þá verið færðar á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, nema þá að því marki sem þetta sérkennilega orðalag í 15. tölulið 5. gr. gæti vísað til, að þessi stofnun eigi allt í einu að leggja mat á og veita ráðgjöf um verndargildi vistkerfa. Verndargildi vistkerfa, mér kemur það mjög spánskt fyrir sjónir, herra forseti.

Ég hef því alla fyrirvara á um þetta mál þangað til að ég get þá að minnsta kosti treyst því að þau sjónarmið sem ég hef talað hér fyrir hafi fengið einhverja athygli í skoðun og vinnu þingnefndanna.