144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

Haf- og vatnarannsóknir.

391. mál
[18:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get sagt að nú þekki ég minn gamla Grím, og á þá við hv. þm. Steingrím Jóhann Sigfússon. Mér fannst nefnilega hér áðan að hann væri kannski aðeins að breyta um afstöðu.

Ég þekki alveg þessa afstöðu hv. þingmanns. Eins og hann man þá var ég við borðið þar sem þetta var rætt og setti þá líka fram afstöðu mína. Hann tókst á við hana með mörgum þéttum rökum, sem hann dró kannski saman í örfáar setningar hér áðan, og ég virði þau rök alveg, ég skil þau. Mér fannst í ræðu hans áðan eins og hann væri að tala á annan veg. Ég hef misskilið það. Ég skil það núna að hann átti við að það væri Veiðimálastofnun sem hefði frekar átt að færast yfir á hinn vænginn.

Það breytir ekki hinu að hann þekkir mína skoðun á þessu. Ég ítreka þá skoðun að betra sé að eitt ráðuneyti hafi eftirlit með auðlindum og meti stöðu þeirra og síðan taki annað ráðuneyti ákvörðun um nýtinguna. Það kemur í veg fyrir ákveðinn hagsmunaárekstur sem mér finnst nokkuð augljóst að gæti komið upp. Kannski má segja að dregið hafi úr honum með þessari ráðgjafarnefnd ef hún á að verða einhvers konar hryggjarstykki í ráðgjöf við stjórnun stofnunarinnar vegna þess að þar eru útgerðin og fiskvinnslan aðeins með einn fulltrúa af níu. Áður var þetta auðvitað þannig, svo að maður segi það hreint út, að hér lengi undir lok síðustu aldar fannst manni stundum sem sjávarútvegurinn sem atvinnugrein væri allt of frek til fjörsins innan Hafró. Núna er þessu alveg við snúið. Hafró er miklu sjálfstæðari stofnun. En það hefur líka annað gerst, útgerðin hefur loksins skilið það að fyrir hana er ávinningur fólginn í því að fylgja ráðgjöfinni (Forseti hringir.) en reyna ekki að breyta henni.