144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

Haf- og vatnarannsóknir.

391. mál
[18:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður las ekkert að öllu leyti vitlaust í mín orð hér áðan. Í raun og veru er það þannig að í fyllingu tímans og í hinum besta heimi allra heima er ég að mörgu leyti sammála því að eðlilegasta eða besta fyrirkomulagið væri að grunnrannsóknir að minnsta kosti og ráðgjöf eða viðmið um sjálfbæra nýtingu væri í höndunum á því ráðuneyti sem bæri ábyrgð á auðlindunum og vernduninni, en ákvarðanirnar um nýtingu teknar í nýtingarráðuneyti. En við erum bara því miður ekki stödd þar.

Það tengist því að enn hefur okkur miðað allt of hægt í átt til þess að eyða þeim hryllilega landlæga misskilningi að verndun og nýting séu einhverjar andstæður, séu einhvers konar átakafjendur í þessu máli, í staðinn fyrir að líta á þetta sem systur, jafn réttháar og óaðskiljanlegar frá hvor annarri. Þá hefði manni fundist að sú tortryggni og kergja sem oft hefur verið uppi í þessum samskiptum ætti smátt og smátt að geta horfið.

Ég tel að við séum ekkert komin á ásættanlegan stað í þróun okkar sem sjálfbært samfélag fyrr en við höfum náð tökum á þessu. En við þekkjum báðir af langri reynslu þá miklu tortryggni sem er þarna á milli eða hefur viljað vera á milli og að menn hafa oft stillt þessu upp sem andstæðum. Þrátt fyrir að umhverfisráðuneytið sé bráðum að verða 30 ára gamalt þá finnur maður enn þessi viðhorf í þess garð, að það sé stofnað einhvern veginn gegn og sem andstæðingur atvinnugreinanna sem byggja á nýtingu lífrænna auðlinda í landinu. Ekkert er fjær sanni að mínu mati.

Til að allrar sanngirni sé þó gætt þá held ég að vissulega hafi orðið árangur í þessum efnum. Sjávarútvegurinn gerir sér til dæmis miklu betur grein fyrir mikilvægi þess að geta hampað sjálfbærri nýtingu (Forseti hringir.) Hann hefur áttað sig á því, meðal annars í gegnum markaðinn sem hefur sent honum skýr skilaboð um það, að gamla hugarfarið dugar ekki lengur.