144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

Haf- og vatnarannsóknir.

391. mál
[18:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við þekkjum það auðvitað hvernig heilir stjórnmálaflokkar lögðust gegn stofnun umhverfisráðuneytisins á sínum tíma með frægu málþófi vegna þess að þeir litu svo á að eðlilegri nýtingu auðlinda væri háski búinn af umhverfisráðuneytinu og það ynni með einhverjum hætti gegn hagsmunum atvinnuveganna. Þvert á móti. Það er hið gagnstæða sem í reynd felst í hlutverki umhverfisráðuneytisins.

Aftur síðan að þessu efni sem við ræðum hér, ég og hv. þingmaður. Mér finnst dálítið erfitt að greina á milli Hafrannsóknastofnunar eins og hún er í dag og Veiðimálastofnunar og segja að einmitt út af þessari áherslu á að mat og eftirlit eigi að vera á einni hendi og ákvörðun um nýtingu á annarri þá sé í lagi og eðlilegt að Veiðimálastofnun fari yfir í auðlindaráðuneytið en ekki Hafró. Mér finnst að sömu rökin liggi þarna til grundvallar báðum stofnunum.

En ég tek undir það með hv. þingmanni að við erum kannski ekki stödd í besta heimi allra heima, en hugsanlega rennur hann einhvern tímann upp. Þá getum við kannski slegist saman fyrir því að breyta þessu með þessum hætti vegna þess að ég held að þetta sé töluvert mikilvægur þáttur í umgengni við auðlindir, þ.e. að koma í veg fyrir þennan vanda sem við getum þess vegna kallað freistnivanda.

Í öllu falli segi ég það að lokum, herra forseti, að frumvarpið er að mörgu leyti gott. Það eru á því ýmsir skavankar eins og gengur og gerist og nefndin tekur fyrir í sinni vinnu en það að sameina þessar tvær stofnanir held ég að verði vísindalegri vinnu beggja mjög til góða.