144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[18:48]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tala hér fyrir minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar þegar ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, sem fjallar fyrst og fremst um rafræn námsgögn.

Þetta er frumvarp sem lætur ekki mikið yfir sér. Í því eru fjórar greinar. Það er örstutt í sjálfu sér. Ég verð að viðurkenna að fyrst þegar þetta kom fram þá taldi ég að það yrði ljúft og eðlilegt að ganga frá þessu máli, en þegar betur er að gáð er aðeins ein grein þarna sem þarf að fara í gegn; annað er í rauninni alls ekki til bóta.

Meginniðurstaða minni hlutans er að frumvarpið, ef það verður samþykkt óbreytt, feli í sér grundvallarbreytingu á lagaumhverfi framhaldsskóla sem sé ekki til bóta. Þá erum við fyrst og fremst að tala um rafrænu námsgögnin, þ.e. að ætla nemendum að greiða fyrir þá innleiðingu.

Ég ætla að fara yfir nefndarálitið efnislega og lesa að hluta til upp úr því. Áður en ég geri það ætla ég að byrja á því að þakka gott samstarf í nefndinni og góða vinnu við þetta frumvarp. Við þurfum ekki að kvarta yfir því. Það skildu bara leiðir í lokin þar sem minni hlutinn skilaði sérnefndaráliti og hefur sérafstöðu gagnvart flestum þáttunum.

1. gr. frumvarpsins fjallar um að námsorlof nái til fleiri faglegra stjórnenda, þ.e. náms- og starfsráðgjafa. Það er í rauninni verið að bæta þeim hópum þar inn. Það er enginn ágreiningur í nefndinni um það. Minni hlutinn styður þá hugmynd og telur það vera jafnræðismál að þessir hópar falli líka undir þessi námsorlof, en bendir á í leiðinni að þá þurfi að gæta þess að námsorlofum, sem eru mjög takmörkuð auðlind, eins og það mundi kannski kallast, það eru ekki allir sem fá þau, langt á milli o.s.frv., verði fjölgað til þess að tryggja að breytingin skerði ekki rétt þeirra sem fyrir eru. Það hefur komið fram hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, sem mælir fyrir hönd meiri hlutans, og það kom líka fram í gögnum sem við þingmenn gátum skoðað með tillögum með fjárlögum að það er búið að setja 10 eða 15 milljónir í málaflokkinn til að mæta þessu. Því ber að fagna. Ég geri ráð fyrir að að þeim upplýsingum fengnum munum við geta stutt þessa grein.

2. gr. fjallar um skólahúsnæði og er breyting á ákvæði í lögum um framhaldsskóla, þ.e. gömlu lögunum, III. kafla um aðra skóla á framhaldsskólastigi. Það er sem sagt ákvæði í lögunum um framhaldsskóla sem segir til um hvaða skilyrði skólar þurfa að uppfylla ef þeir ætla að fá leyfi, þ.e. skólar sem eru sjálfseignarstofnanir, hlutafélag eða með annað viðurkennt rekstrarform. Í rauninni má kalla þá einu nafni einkaskóla. Þar eru taldir upp liðir frá a til h og í h-liðnum í þessu framhaldsskólafrumvarpi, þ.e. eldri lögunum sem er verið að breyta, eru skilyrði fyrir viðurkenningu einkaskóla starfsaðstaða og aðbúnaður kennara og nemenda og þjónusta við þá. Hæstv. menntamálaráðherra og þeir sem leggja fram frumvarpið gera tillögu um að þessi liður falli brott og í staðinn komi almennt ákvæði um að fara skuli að lögum og reglugerðum.

Ég og minni hlutinn erum þeirrar skoðunar að ekki séu nein efnisleg rök fyrir því að fella þennan lið brott. Það er full ástæða til þess, þegar menn veita leyfi fyrir skólum sem njóta styrks af almannafé, að getið sé um starfsaðstöðu og aðbúnað kennara og nemenda og þjónustu við þá, eins og annað sem þarna er nefnt, hlutverk og markmið skóla, stjórnskipan skóla o.s.frv. Ég sé engin efnisleg rök fyrir því að henda þessu út. Auðvitað á ekki að gera minni kröfur hvað varðar einkaskóla en til annarra skóla.

Það komu mjög þarfar ábendingar, m.a. frá Menntaskólanum á Tröllaskaga þar sem bent var á að þegar menn ræddu skóla þá væri allt of mikið talað um byggingar. Ástæða væri til að huga að því að það eru til skólar sem kenna fjarnám, skólar sem eru á netinu, og það væri líka ástæða til að skilgreina kröfurnar gagnvart því hverjir hefðu viðurkenningu ráðuneytis hvað varðar einingar og annað slíkt, að það væru skilgreindar kröfur hvað varðar tæknibúnað og gæðakröfur og annað. Við gerum ekki tillögur um breytingar á því atriði hér en vekjum athygli á þessu, en leggjumst aftur á móti gegn 2. gr., að kröfum hvað varðar einkaskólana verði breytt.

Í 3. gr. frumvarpsins er mælt fyrir því að ráðherra skuli setja reglugerð um starfstíma framhaldsskóla. Þetta var rökstutt með því að kjarasamningar væru nýbúnir og að þeir sem að þeim komu vildu tryggja að samkomulag væri um það hversu margir dagar ættu að vera í árlegum skólatíma framhaldsskólanna. Í sjálfu sér hefði maður kannski undir venjulegum kringumstæðum sagt að þetta væri áhættulítið atriði en það er dagafjöldi í lögunum núna. Í 15. gr. í IV. kafla laga um framhaldsskóla stendur:

„Er þá miðað við að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda sé að lágmarki 175 dagar.“

Ef það á að breyta þessu í 180 hefði okkur fundist eðlilegra að breyta dagafjöldanum í lagafrumvarpinu. Rökin eru þau að við höfum séð það í breytingum sem núna er verið að gera á framhaldsskólunum að mörg mikilvæg atriði fara í raunveruleikanum bara í gegnum ráðuneytið og koma aldrei til umfjöllunar á Alþingi eða í viðkomandi fagnefnd. Þess vegna væri eðlilegra, alveg eins og við ákveðum t.d. skólagjöld í háskólum með lögum — það er lagaákvæði um að það megi vera 75 þúsund, það var áður 60 — að fjalla um það þá í þinginu því að reglugerð er hægt að setja án þess að fara í neitt umsagnarferli. Það kom meðal annars fram hjá kennarasamtökum og öðrum aðilum að það væri óeðlilegt afsala sér réttinum til þess að fjalla um starfstíma á þingi.

Auðvitað má alltaf deila um hvað eigi að vera í lögum og hvað eigi að vera í reglugerðum. Oftast vilja ráðherrar og ráðuneytin gjarnan fá meiri reglugerðarheimildir. Það þýðir þá að við stöndum frammi fyrir því að verið að gera róttækar breytingar sem skipta kannski mjög miklu máli en fá enga umræðu í þinginu fyrr en eftir á þegar búið er að ljúka málinu. Minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar gerir því tillögu um að þessu ákvæði verði ekki breytt heldur verði starfstími skólanna áfram í lögum og hljóti afgreiðslu sem lagaákvæði.

Þá er komið að 4. gr. sem er stærsta greinin og nefnd í titli frumvarpsins, þ.e. rafræn námsgögn. Það er rétt sem kom hér fram að þetta mál var flutt á síðasta þingi, þá með almennri reglu um að það mætti innheimta gjald fyrir rafræn gögn. Þessi tillaga snýst um að bæta við 45. gr., sem fjallar um innritunargjald og efnisgjald, og hljóðar nú þannig, með leyfi forseta:

„Skólameistari ákveður upphæð innritunargjalds og efnisgjalds sem nemendum er gert að greiða við upphaf námsannar eða skólaárs.“

Þarna á að lauma inn „og gjalds fyrir rafrænt námsefni“. Það er búið að breyta þessu frá því sem var þegar málið var flutt fyrir ári yfir í að það verði gert í tilraunaskyni með sérstöku leyfi ráðherra að innheimta gjald af rafrænu námsefni.

Það skal sagt mjög skýrt af hálfu minni hlutans og það kemur mjög skýrt fram í nefndarálitinu að við styðjum heils hugar að allt verði gert til þess að efla notkun rafrænna námsgagna. Við teljum mjög mikilvægt að styðja við það eins og hægt er. En það er samdóma álit minni hlutans að það eigi ekki að gera á kostnað nemenda. Þetta heimildarákvæði er galopið miðað við lögin og þær skýringar sem koma fram. Það er ekkert sem skilgreinir hvað er átt við með „rafræn námsgögn“. Félag framhaldsskólanemenda og ungir jafnaðarmenn og fleiri spurðu meðal annars: Hvað er átt við með þessu? Á að fara að selja glósurnar sem kennarar eiga að skila? Eru menn áskrifendur að einhverjum gögnum?

Auðvitað má segja að það eigi að stýrast af ráðuneytinu með þessum tilraunaverkefnum. Við segjum einfaldlega: Það er sjálfsagt að fara út í tilraunir og reyna að koma af stað ákveðnum verkefnum en þá verða menn að virkja ákvæði sem er í framhaldsskólalögunum, í 51. gr., þar sem hefur frá upphafi, þ.e. í sambandi við framhaldsskólalögin, verið gert ráð fyrir því að lagðir verði peningar til námsgagna. Það ákvæði hefur ekki verið virkjað en nú þegar peningar flæða út yfir barmana á öllum sjóðum er ástæða til að virkja þetta ákvæði. Það væri miklu skilvirkara og betra fyrir stuðning við fjölbreyttara framboð á námsgögnum. Gagnvart rafrænum námsgögnum gæti þurft að setja upp eitthvert umhverfi eða grunn til að koma þeim fyrir. Það væri miklu skilvirkara að ríkið tæki þetta að sér og setti í það fjármagn og tryggði að það yrði gert án þess að nemendur yrðu rukkaðir fyrir það sérstaklega. Það er niðurstaða minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar að leggja slíkt til.

Það kemur ekkert fram í þessu frumvarpi um kostnaðinn ef tilraunaverkefnið verður sett af stað, þ.e. við að innleiða kannski bækur í ákveðnum greinum. Það fylgir því stofnkostnaður að taka einstök verkefni inn. Á þá viðkomandi nemendahópur í einum einstökum skóla að borga þann kostnað að fullu eða á ríkið að koma á móti? Það eru engin ákvæði um upphæðir. Það eru engin ákvæði um hversu háar þessar upphæðir mega vera. Þegar meiri hlutinn nefnir í nefndaráliti sínu að þetta muni leiða til þess að námsgögn verði ódýrari þá held ég að það sé hárrétt, en það breytir ekki því að það er engin trygging fyrir því að það verði það fyrr en búið er að fara í gegnum allt þetta ferli og innleiða námsgögnin á kostnað nemenda. Það er það sem við erum að gagnrýna og leggjumst þess vegna gegn þessari breytingu.

Eins er ekki með nokkru móti hægt að sjá að þetta flýti innleiðingu eða útgáfu á rafrænu efni, sem er gríðarlega mikilvægt að verði gert. Það kom meðal annars fram hjá þeim sem selja bækur og eru að reyna að komast inn á þennan markað og hafa efni á því að gefa út skólabækur. Iðnú er eitt af útgáfufyrirtækjunum sem hafa séð mikið um námsgagnaútgáfu. Það mátti heyra að mörgu leyti á þeim að þeir skildu þetta þannig að þessi rafrænu námsgögn ættu bara að vera þýðingar á bókum eða að fá leyfi til að koma þeim yfir í rafrænt form inn á netið eða eitthvað slíkt. Við erum að tala um miklu meira ef þetta eru galopin námsgögn. Námsgögn geta verið gagnvirkir vefir, aðgangur að ákveðnum upplýsingaveitum, þýðingar á ákveðnum heimasíðum o.s.frv. Ég held að ég hafi ekki einu sinni hugmyndaflug í að nefna hvaða möguleikar geta fallið þarna undir. Að setja þetta þannig upp að það megi stofna til verkefna hér og þar á kostnað nemenda finnst mér alveg út úr korti. Álit minni hlutans á málinu er að virkja 51. gr. og tryggja að í þetta verði settir peningar með þeirri megináherslu að styrkja fjölbreytni námsgagna og styrkja þá líka innleiðingu á rafrænum námsgögnum.

Í þessu samhengi má nefna að framhaldsskólalögin eru ekki mjög gömul. Í framhaldinu voru samdar skólanámskrár fyrir framhaldsskóla. Í þeim er gert ráð fyrir nýju kennsluefni. Það skiptir mjög miklu máli að menn fylgi því eftir að þessar nýju námskrár komist í gagnið með tilheyrandi námsgögnum. Aftur: Það getur ekki verið nemendanna að borga það. Það er bara kostnaðurinn við það að innleiða lög.

Sérstaklega verður að skoða þetta í því samhengi að upphaflega gerðu menn ráð fyrir gjaldfrjálsum framhaldsskóla alveg eins og grunnskóla. Við stingum upp á því hér og nefnum það að eðlilegt sé að gera þetta í áföngum. Við tækjum rafrænu gögnin fyrst með því að setja fjármagn inn í tengslum við 51. gr. Í framhaldinu mætti svo hugsa sér að námsgögn yrðu ókeypis upp að 18 ára aldri sem er nú skilgreindur aldur barns, þ.e. ef við hugsuðum það þannig, og síðan bara fyrir skólana í heild.

Manni bregður við þegar maður sér hversu háar upphæðir nemendur borga nú þegar í námsgögn. Ef það er rétt sem frumvarpið segir er það á bilinu 1,3–1,9 milljarðar sem nemendur eru taldir greiða nú þegar fyrir námsgögn.

Námsmenn hafa séð við því þegar gerðar eru kröfur um ákveðnar námsbækur. Þeir hafa verið með skiptibókamarkað og geta endurnýtt bækur. Undan því kvarta að sumu leyti söluaðilarnir vegna þess að það þýðir að erfiðara er að gefa út bækur á þessum markaði. Það þarf auðvitað að hugsa þetta þannig að menn geti tryggt fjölbreytnina og að það sé áhugi á útgáfu. Við hefðum kannski átt, og það hefur verið nefnt töluvert og var nefnt að hluta til af framsögumanni meirihlutaálits, að hugsa til nýrrar stofnunar þar sem stendur til að sameina Námsgagna- og Námsmatsstofnun. Sú stofnun gæti þjónað svipuðu hlutverki og hún gerir gagnvart útgáfu fyrir grunnskóla, að veita styrki til námsbókaútgáfu eða námsefnisútgáfu, og þannig yrði aukin fjölbreytni tryggð.

Eitt af því sem mér brá líka svolítið við í umfjöllun í nefndinni var þegar fulltrúi BSRB vakti athygli á því að það væri hvergi í framhaldsskólalögum heimild til gjaldtöku af nemendum. Með þessari litlu breytingu í kaflanum um innritunargjöld og efnisgjöld er allt í einu komin heimild til gjaldtöku. Það er það sem við eigum við í inngangi nefndarálits okkar að um er að ræða grundvallarbreytingu sem ekki er til bóta. Stígum skrefið frekar í hina áttina og tryggjum að kostnaður við framhaldsskólana verði jafnaður og minnkaður og nemendur greiði minna. Þannig jöfnum við stöðuna. Eitt sem við þurfum líka að horfa til og er hluti af grundvallarhugsuninni í öllu íslenska skólakerfinu er jafnt aðgengi, að hægt sé að stunda skóla óháð efnahag og að það sé jafnræði með nemendum að komast til náms óháð búsetu og öðru. Þetta frumvarp stuðlar ekki að því.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að flytja lengri ræðu. Þetta er skýrt í nefndaráliti minni hlutans sem er undirritað af þeim sem hér stendur, Páli Val Björnssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni og Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Eðlilegast hefði verið að kalla frumvarpið til baka og reyna að vinna það aðeins betur. Við gerum þó ekki tillögur um breytingar á því eins og það kemur fram. Þetta er lítið mál sem er býsna stórt í prinsippinu og algjörlega ónauðsynlegt þegar maður fer yfir það nema kannski 1. gr. um að tryggja námsráðgjafa sem yrði hluti af kjarasamningum og er ástæða til að styðja eftir að fjármagn er komið inn í þann lið.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa málið lengra. Flestir af þeim sem komu, m.a. kennarasamtök, BSRB, Ungir jafnaðarmenn, félag framhaldsskólanema, allir í rauninni nema Iðnú og þeir sem standa í bókaútgáfunni, mæltu í sjálfu sér gegn því að gera þetta með þessum hætti þó að efnislega værum við öll sammála um að markmiðin sem væri verið að reyna að ná fram skiptu mjög miklu máli.

Ég gæti alveg hugsað mér að setja tímabundið ákvæði inn í lög um heimildir til að taka gjald af nemendum ef við hefðum lifað við ástand eins og var hér fyrst eftir hrun. En nú er verið að deila út hundruðum milljóna og milljörðum á þessum klukkutímum á Alþingi. Þá segi ég: 50 milljónir eða eitthvað slíkt til nemenda til að innleiða rafræn gögn og þó að það færi upp í 100 milljónir mundi skipta sköpum til að breyta þessu umhverfi. Það gagnaðist betur en að sækja þessa peninga beint í vasa námsmanna.