144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[19:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna og góða greinargerð sem hún gaf fyrir afstöðu sinni til þessa máls. Hún tók dæmi af Menntaskólanum á Tröllaskaga. Ég hef átt því láni að fagna að heimsækja þann skóla og mig langaði þess vegna aðeins að nefna þær áhyggjur sem ég hef af þessu máli og heyra viðhorf þingmannsins sem nefndarmanns til þess. Ég hef áhyggjur af því að hér sé verið að auka aðstöðumun á milli skóla sem eru í nýsköpun í námsfyrirkomulagi og námsmati og námsefnisgerð og svo hefðbundinna bóknámsskóla.

Nemendur í hefðbundnum bóknámsskólum búa við uppsafnaða þekkingu og reynslu. Það er hægt að nota gamlar bækur. Það eru skiptimarkaðir með bækur þannig að fólk sem hefur lítil efni getur orðið sér úti um þær og það má fá bækur að láni, þetta þekkjum við öll sem höfum gengið í gegnum hefðbundinn menntaskóla. Það er hægt með útsjónarsemi. Meira að segja lagði maður það á sig og nokkrir í félagi að skrifa upp bækur ef þær voru sérstaklega dýrar.

Það horfir öðruvísi við með rafræn námsgögn. Þegar námsgögn eru í nýju formi og innheimt gjöld fyrir þau sé ég enga hjáleið þar fram hjá. Það þýðir að kostnaður af námsgögnum mun verða meiri fyrir efnaminni nemendur, mun meiri, í skólum sem eru að brjóta nýjar leiðir í skólahaldi en í hinum hefðbundnu bóknámsskólum.