144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[19:29]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vorum að funda í gær með aðstandendum framhaldsskólans í Grundarfirði og þetta er eitthvað sem kom aðeins til tals, þ.e. þessi fjarskipti og dreifnám sem þeir byggja á. Það er ekki spurning að þetta er eitt af því sem við heyrðum líka hjá öllum sveitarfélögunum sem komu í heimsókn til fjárlaganefndar, þ.e. fjarskiptin. Það var ekki rætt í nefndinni, ekki neitt, og er auðvitað bagalegt af því að við þurfum að fylgjast með og passa upp á dreifnámið við gerð fjárlaganna og þegar tillögurnar koma fram núna, að því sé haldið til haga að þeir skólar sem hafa verið með slíkt nám fái til þess fjármuni.

Maður getur sagt aftur að ríkisstjórnin hefur borð fyrir báru, hún á töluvert af fjármunum, segir hún, og það er eitt stærsta mál hverrar byggðar að hafa fjarskiptin í lagi. Þetta var eitt af því sem var bæði nefnt núna og í fyrra, til þess að halda unga fólkinu heima, til þess að geta laðað að fyrirtæki o.s.frv. Að sjálfsögðu þurfum að berjast fyrir því að í þetta verði settir fjármunir, því að við viljum öll bjóða þessum nemendum okkar upp á aðgengi sem verður til þess að þau geti verið heima. Það er hagstætt fyrir heimilin, það er hagstætt fyrir byggðarlögin og það gerist ekki án þess að þetta sé í lagi.