144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Okkur hefur orðið tíðrætt um ákvörðun meiri hluta atvinnuveganefndar að leggja til þá breytingu að setja sjö kosti til viðbótar í nýtingarflokk. Eftir því sem maður hugsar um þetta meira sýnir þessi framkoma svo mikið virðingarleysi gagnvart lögum í landinu, þeim lögum sem við eigum um vernd og nýtingu landsvæða, og hreinlega yfirgang. Hvað liggur svona mikið á í þessum efnum að ekki er hægt að fara lögboðnar leiðir? Hvað hastar svona? Höfum við landsmenn ekki næga orku? Getum við ekki kveikt ljósin eða geta fyrirtæki ekki ræst upp á morgnana vegna þess að það vantar orku? (JónG: Nei …) Er ástandið þannig, hv. formaður atvinnuveganefndar? Erum við komin í þá stöðu að það þurfi hér og nú að keyra í gegn með brussugangi sjö virkjunarkosti og virkja og virkja? Ég held að menn ættu að hlusta á unga fólkið í þessum efnum sem hefur komið til fundar við okkur í atvinnuveganefnd [Kliður í þingsal.] og sagt: Ætlar kynslóðin sem nú er við stjórnvölinn, hv. formaður atvinnuveganefndar …(Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsal.) (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti var að biðja um hljóð í þingsal.)

Ég held að það væri rétt hjá karlmönnum hér í sal og hv. formanni atvinnuveganefndar að hlusta á unga fólkið í landinu þegar það segir við okkur: Ætlið þið, kynslóðin sem nú situr við völd, að gleypa alla kosti hér og nú, ráðstafa öllu áður en komandi kynslóð hefur nokkurt svigrúm til að ákveða hvernig hún vill nýta landið? Það er hægt að nýta það á marga vegu og öðruvísi en með virkjunarkostum þar sem orkan fer kannski fyrst og fremst í stóriðju. Við höfum næga orku fyrir fyrirtækin í landinu og í nýtingarflokki í dag er næg orka til að mæta þeirri þörf sem er fram undan. Við erum ekki (Forseti hringir.) í þannig aðstæðum að það sé allt að fara á hliðina í þjóðfélaginu.