144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

365. mál
[11:03]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, með síðari breytingum.

Frumvarpið snýr í meginatriðum að breytingu á lögunum í þá veru að styrkja kirkjuþing og skýra stöðu þess betur og færa stjórn fjármála þjóðkirkjunnar til kirkjuþings. Sambærilegt frumvarp var lagt fram á 143. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu úr allsherjar- og menntamálanefnd. Frumvarp það sem nú er lagt fram er samhljóða fyrra frumvarpi.

Forsaga málsins er sú að endurskoðun þjóðkirkjulaganna hefur staðið yfir frá árinu 2007 en þá kaus kirkjuþing nefnd til að endurskoða lögin. Önnur nefnd var síðan kosin árið 2012 sem lagði fram frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum á kirkjuþingi 2013. Frumvarpið hefur ekki hlotið afgreiðslu á kirkjuþingi enda málið umfangsmikið. Hins vegar hefur komið fram á kirkjuþingi að brýna nauðsyn beri til að breyta tilteknum atriðum í núgildandi lögum, m.a. til einföldunar og hagræðingar í rekstri þjóðkirkjunnar.

Með setningu núgildandi laga var sjálfstæði kirkjunnar aukið verulega. Talið er mikilvægt að halda því starfi áfram og veita kirkjuþingi auknar heimildir til að setja starfsreglur um ýmis atriði í stjórnskipan kirkjunnar sem áður hafa verið bundin í lög. Í þeim tilgangi að styrkja stöðu kirkjuþings, skýra stöðu þess betur og færa meðal annars stjórn fjármála til þingsins telur kirkjuþing að tilteknar breytingar þurfi að ná fram að ganga hið fyrsta. Í því skyni samþykkti kirkjuþing haustið 2013 tillögu að þeim lagabreytingum sem í þessu frumvarpi felast og í kjölfarið beindi kirkjuráð þeim tilmælum til innanríkisráðherra að frumvarp um breytingu á þjóðkirkjulögum yrði lagt fyrir Alþingi eins fljótt og kostur væri.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Í 1. og 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á því hvernig taka skuli á agamálum og siðferðismálum innan þjóðkirkjunnar og ágreiningsmálum sem upp kunna að koma af þeim sökum en mál þessi heyra í dag undir biskup Íslands, samanber 11. gr. laganna, og úrskurðar- og áfrýjunarnefnd samkvæmt 12. og 13. gr. laganna.

Lagt er til að úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd verði lagðar niður en í staðinn setji kirkjuþing starfsreglur samkvæmt 59. gr. laganna um kirkjuaga og úrræði um lausn ágreiningsmála sem upp kunna að koma á þessum vettvangi. Með því að setja úrræði um þessi mál í starfsreglur telja kirkjuyfirvöld að unnt verði að skerpa á því í hvaða farveg kvörtunar- og kærumál eiga að fara en reynslan af úrskurðarnefnd sé sú að ekki hafi alltaf verið ljóst hvaða mál heyri undir nefndina og hvaða mál undir agavald biskups. Einnig er það talið í anda laganna, sem meðal annars er að efla sjálfstæði kirkjunnar, að kirkjuþing ákveði reglur um hvernig um þessi mál skuli fara.

Í 3. gr. er lagt til að ákvæði um tiltekin verkefni biskupafundar sem fram koma í 19. gr. laganna verði felld brott í samræmi við þann tilgang laganna að fækka lagalegum fyrirmælum og treysta kirkjuþingi fyrir þeim verkefnum með setningu starfsreglna. Kirkjuþingi er auk þess falið samkvæmt 50. gr. laganna að setja starfsreglur um þau sömu verkefni, þ.e. um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma, en biskupafundur hefur hingað til gert tillögur um þessi mál til kirkjuþings.

Í 4. gr. er ákvæði sem lýtur að því að skýra betur stöðu kirkjuþings en þar er nú lagt til að skýrt verði kveðið á um að þingið fari með stjórn fjármála þjóðkirkjunnar, auk þess sem það fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar nema lög mæli á annan veg.

Að lokum eru í 5. gr. lagðar til lítils háttar breytingar á skilyrðum til skipunar eða setningar í prestsembætti. Þar á meðal er nýtt ákvæði um að kandídat í prestsembætti sé við upphaf starfs síns sóknarmaður í þjóðkirkjunni nema samkirkjulegar samþykktir heimili annað. Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu eru nauðsynlegar vegna samhengis við helstu tillögur frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið helstu efnisatriði frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umr.