144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

365. mál
[11:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Tilefni þess að ég kem hér upp var að einhverju leyti það sama og kallaði flokkssystur mína, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, hér upp.

Ég vil byrja á að taka fram að kirkjan hefur stjórnarskrárvarinn rétt sem þjóðkirkja. Við þingmenn sem setjumst hér inn skrifum undir drengskaparheit að stjórnarskránni þannig að ummæli eins og ýjað var að í umræðunni áðan, um að kirkjan ætti fáa málsvara hér, eru ómakleg.

Það breytir ekki því að viðhorf til stöðu þjóðkirkjunnar eru margvísleg hér á landi og það er langt í frá eining um kirkjuskipan. Ég tel þó rétt að benda á að fram fór þjóðaratkvæðagreiðsla 20. október 2012 um nýja stjórnarskrá. Ég tilheyri þeim hópi þingmanna sem tók mark á þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu og tel að við eigum að fara eftir þeim vilja sem þar kom fram.

Þar vildi fólk breytingar. Það vildi breytingar þannig að í nýrri stjórnarskrá væru náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign. Það var yfirgnæfandi vilji, 85% voru sammála um að svo ætti að vera. Fólk var líka sammála um að auka ætti persónukjör í kosningum til Alþingis, yfirgnæfandi meiri hluti. Það var líka yfirgnæfandi meiri hluti sem vildi að alls staðar á landinu yrði vægi atkvæða jafnt. Það var líka yfirgnæfandi meiri hluti sem vildi hafa ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna gæti krafist þess að mál færu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta voru mjög skýrar niðurstöður.

Síðan var önnur spurning lögð var fram: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? Þar var meirihlutavilji, um 60% kjósenda vilja að þjóðkirkjan verði áfram í stjórnarskrá. Persónulega er ég ekki endilega sammála því en þetta er leiðsögnin sem við höfum fengið. Mín skoðun er sú að við hér eigum bæði að virða stjórnarskrána og vilja kjósenda sem kemur fram í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó að hún sé ekki bindandi samkvæmt stjórnarskrá. Hún er bindandi samkvæmt því að við sýnum kjósendum trúnað og að við bregðumst ekki vilja þeirra og trausti með því að hunsa skoðun þeirra. Í því ljósi þurfum við að ræða stöðu þjóðkirkjunnar.

Það truflar mig mjög í þessu frumvarpi að það hefur verið flutt áður en ekki var hægt að afgreiða það því að athugasemdir voru gerðar, þingið treysti sér ekki til að samþykkja það eins og það lá fyrir. En þrátt fyrir það telur kirkjuráð að það þurfi ekki frekari skoðunar við og hefur óskað eftir því við ráðherra að frumvarpið verði lagt fram á ný í óbreyttri mynd. Ég vara við því. Þó að meiri hluti vilji tryggja stöðu þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá þá þýðir það ekki að kirkjuþing fái boðvald yfir Alþingi Íslendinga. Þannig getum við ekki haft það.

Sjálfstæði kirkjunnar hefur verið aukið verulega og ég held að það sé mjög góð þróun. Þjóðkirkjan er stór stofnun. Þar eru auðvitað fjölbreyttar skoðanir. Þar eru afturhaldsseggir og mjög framsæknir prestar. Þjóðkirkjan gegnir mjög mikilvægu hlutverki, við getum öll verið sammála um það. En ef vilji er til óbreyttrar skipunar, sérstakrar verndar þessar stofnunar, þá verður þingið náttúrlega að hafa töluvert um það að segja hvernig málum þar er háttað.

Mig langaði að lokum, af því að það er nú gott að muna það, að geta þess að í áðurnefndri þjóðaratkvæðagreiðslu kom jafnframt fram að 40% kjósenda vilja ekki hafa sérstakt ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá. Þar með eru þeir ekki endilega að svara því hvort skilja eigi á milli ríkis og kirkju, það er ekkert hægt að túlka það út úr þessum svörum. Þeir telja að það sé bara eðlilegt að kveðið sé á um það í lögum.

Ég held að til þess að fara bil beggja, og líka til þess að gefa kirkjunni aukið sjálfstæði hvað varðar skipan sinna mála, ákveðinna þátta þeirra, væri eðlilegt að sóknargjöldin, í stað þess að koma úr ríkissjóði af almennu skattaflafé, yrðu sérstakur skattur fyrir kirkjuna og önnur trúfélög — og lífsskoðunarfélög sem jafnframt fá greiðslur úr ríkissjóði eftir breytingu, sem var mjög jákvætt að var gerð. Þá væri eðlilegt að við gætum bara hakað við það á skattframtalinu okkar hvort við vildum vera félagar og greiða félagsgjöld í trúfélög og lífsskoðunarfélög. Þá væru þeir sem standa utan slíkra félaga ekki að fjármagna slíka starfsemi. Þá hættum við þessum deilum um hvort kirkjan væri að fá þá fjármuni sem henni ber samkvæmt samningum. Þá væri bara algjörlega skýrt hvaða fjármunum hún hefði úr að spila. En við hér á Alþingi mundum auðvitað, í samráði við kirkjuyfirvöld og önnur trúfélög sem og lífsskoðunarfélög, ákveða hverjar þessar fjárhæðir ættu að vera hverju sinni.

Málið gengur nú til umræðu og ég vona að þingmenn fari yfir þetta með mjög gagnrýnum hætti, hlusti hér á orð hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, sem tók þátt í vinnslu málsins síðast þegar það var lagt fram, á 143. löggjafarþingi. Ef tortryggni er uppi um að við séum ekki öll nógu þóknanleg stjórnarskránni þá getur fólk treyst því að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur ítrekað bent á að hún beri hag kirkjunnar mjög fyrir brjósti. Ég held að við ættum að hlusta á þau varnaðarorð sem fram hafa komið út af þessu frumvarpi.