144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

365. mál
[11:57]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði rétt aðeins að koma inn í þessa umræðu nú á lokametrunum. Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa talað að 2. gr. stendur svolítið í mannskapnum. Ég ber þá von í brjósti að við í allsherjar- og menntamálanefnd fáum þangað aðila sem þar geta gert grein fyrir því hvernig þeir hyggjast leysa úr því sem fylgir í kjölfarið ef nefndirnar verða lagðar niður þrátt fyrir gildisákvæðið. Eins og hér kom fram í máli þingmanna áðan þá hafa ekki, þrátt fyrir annað kirkjuþing, komið fram neinar reglur um þetta. Það er alltaf svolítið sérstakt innan stofnunar þar sem brot eru framin eða farið á svig við siðareglur eða eitthvað slíkt að sama stofnun skuli í rauninni úrskurða hvort kvörtun eða kærumál eigi við rök að styðjast eða eigi rétt á sér. Það er líka hluti af því að ég hef efasemdir um frumvarpið.

Þetta er samt stórt mál og það eru auðvitað vonbrigði, eins og hér hefur komið fram, að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda. Hæstv. ráðherrann getur kannski svarað því hvers vegna það var ekki gert ef það hefur verið mjög mikið rætt hér þegar frumvarpið var lagt fram síðast. Eins og hér kom líka fram þá er ekki annað í valdi kirkjuþings en að leggja til eitthvað og okkar að vinna með það áfram. Hér komu fram athugasemdir sem virðist ekki hafa verið tekið tillit til og þeirri spurningu er ósvarað hvers vegna það var ekki gert.

Traustið á kirkjunni er mjög mikilvægt því að það er mikið rót eins og við vitum í samfélaginu. Það eru alls konar skoðanir á kirkjunni. Eins og hér hefur verið rakið höfum við ástæðu til því að þetta eru málefni sem eiga að vera í góðum farvegi.

Þegar ég skoðaði þetta frumvarp velti ég fyrir mér því hagræði sem talað er um. Við mat á áhrifum frumvarpsins í athugasemdum við það er sagt að niðurlagning þessara nefnda leiði til sparnaðar af því að þær kosta töluverða fjármuni. Svo er rökstutt að verksviðið sé ekki skýrt. Hversu mikla fjármuni er verið að spara með því að leggja nefndirnar niður? Ef einhverjar reglur verða settar og þeim framfylgt, kostar það þá ekki neitt eða kostar það miklu minna eða hvað leiðir það af sér?

Það er líka talað um sparnað vegna þess að biskupafundur búi ekki lengur málin í hendur prestastefnunnar. Í fylgiskjali er talað um að verkefnabundin útgjöld kirkjumálasjóðs falli niður og þar með aukist svigrúm hjá þjóðkirkjunni. Þjóðkirkjan hefur gagnrýnt að mikið af útgjöldum hennar og framlögum séu bundin og lítið svigrúm hafi verið til að gera eitthvað sem kirkjan hefði viljað gera, hvort sem það er að hagræða eða endurskipuleggja í rekstrinum.

Það er því tvennt sem hér er talað um að leiði til hagræðis: Það eru verkefnabundin útgjöld Kirkjumálasjóðs, og ég mundi gjarnan vilja vita hver þau eru, og svo hversu mikið þessar nefndir hafa kostað. Það hefur ekki komið fram í umræðunni. Það væri áhugavert ef hæstv. ráðherra gæti svarað því.

Í öðru lagi langar mig í sjálfu sér að fagna 3. gr. Mér finnst hún jákvæð, þ.e. að færa meiri áhrif í hendur sóknanna þannig að þær geti haft áhrif á sína skipan og hvar prestaköllum og prófastsdæmum er fyrir komið og hvernig, ekki bara biskupafundurinn. Ég held að það sé mjög gott að málin séu sem mest innan sóknanna.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í þessari umræðu. Mig langaði bara til þess að fá svör við þessu: Hversu mikið sparast við þetta? Er ekki gert ráð fyrir því að það kosti neitt að sinna þessum málum í framtíðinni þrátt fyrir breytt fyrirkomulag, hvert svo sem það verður á endanum?

Eins og ég segi þá hvet ég til þess að við fáum þá sem málið varðar á fund allsherjar- og menntamálanefndar til þess að segja okkur hvaða hugmyndir þeir hafa af reglum og fyrirkomulagi þessara mála.