144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[12:04]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Frumvarpið felur í sér þrennt. Í fyrsta lagi kveður það á um fjölgun nefndarmanna í ráðgjafarnefnd ráðherra samkvæmt 15. gr. laganna, í öðru lagi setningu bráðabirgðaákvæðis um mildun áhrifa breyttrar aðferðafræði Þjóðskrár Íslands við fasteignamat atvinnuhúsnæðis á álagðan fasteignaskatt og í þriðja lagi setningu bráðabirgðaákvæðis um sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Mun ég nú víkja sérstaklega að hverju þessara ákvæða.

Fyrst varðandi fjölgun í ráðgjafarnefnd ráðherra. Samkvæmt 15. gr. tekjustofnalaganna skipar ráðherra fimm manna ráðgjafarnefnd til fjögurra ára sem gera skal tillögur til ráðherra um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Fjórir nefndarmenn eru skipaðir samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga en einn án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar. Þau framlög sem nefndin hefur haft til umfjöllunar eru sérstök framlög samkvæmt 11. gr., jöfnunarframlög samkvæmt 12. gr. og jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla samkvæmt 13. gr. Við flutning málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaganna um áramótin 2010–2011 voru jafnframt tekin upp sérstök jöfnunarframlög vegna þjónustu við fatlað fólk, samanber 13. gr. a, og hafa tillögur ráðgjafarnefndarinnar jafnframt tekið til þeirra.

Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga í nefndinni hafa til þessa komið frá sveitarfélögunum utan höfuðborgarsvæðisins, en með upptöku sérstakra jöfnunarframlaga vegna þjónustu við fatlað fólk jukust hins vegar til muna hagsmunir Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu af því að taka þátt í starfi nefndarinnar. Því er hér í 1. gr. frumvarpsins kveðið á um að fulltrúum sambandsins verði fjölgað um tvo, er þá gengið út frá því að þessir nýju fulltrúar komi frá Reykjavíkurborg og sveitarfélögunum í Suðvesturkjördæmi.

Þá er tekinn af allur vafi um það að tillögur ráðgjafarnefndarinnar skuli jafnframt taka til jöfnunarframlaga vegna þjónustu við fatlað fólk samkvæmt 13. gr. a, en ekki eingöngu framlaga samkvæmt 11.–13. gr. laganna.

Ég vík þá að bráðabirgðaákvæði a samkvæmt 2. gr. frumvarpsins sem snýr að mildun á áhrifum breyttrar aðferðafræði Þjóðskrár Íslands við fasteignamat atvinnuhúsnæðis.

Þjóðskrá Íslands annast fasteignamat samkvæmt lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, en fasteignamatið myndar stofn álagningar fasteignaskatts árið eftir eftir ákvæðum laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Frá árinu 2009 hefur Þjóðskrá Íslands endurmetið allar fasteignir árlega, en áður var byggt á árlegum framreikningi fasteignamats. Fram til ársins í ár var meginmatsaðferð Þjóðskrár á atvinnueignum markaðsleiðrétt kostnaðarmat, en við endurmatið í ár beitti stofnunin tekjumati á stóran hluta þessara eigna, þ.e. skrifstofu- og verslunareignir og eignir með léttan iðnað. Þessi breyting á aðferðafræði fasteignamats skrifstofu- og verslunareigna og eigna fyrir léttan iðnað hefur í för með sér töluverðar og mjög mismunandi breytingar á fasteignamati þeirra, en um mun vera að ræða liðlega 13.000 eignir. Fasteignamat sumra þeirra breytist lítið en aðrar ýmist hækka í mati eða lækka með tilheyrandi áhrifum á stofn fasteignaskatts. Að öllu óbreyttu mundu þessar breytingar á fasteignamati skila sér beint í álagðan fasteignaskatt á næsta ári.

Til að milda og jafna út þessi áhrif er í bráðabirgðaákvæði a kveðið á um það að hið breytta fasteignamat skili sér ekki strax að fullu í álagðan fasteignaskatt næsta árs. Þess í stað mun stofn við álagningu fasteignaskatts á árinu 2015 miðast að rúmum 2/3 við fasteignamat þessara eigna á árinu 2014 og á árinu 2016 að tæpum 1/3 við fasteignamat ársins 2015. Þessi aðlögun er verulega ívilnandi fyrir þá fasteignaeigendur sem standa frammi fyrir mikilli hækkun á fasteignamati sinna eigna vegna hinnar breyttu aðferðafræði við mat á atvinnuhúsnæði, en nokkur dæmi eru um að breytt aðferðafræði leiði til allt að tvöföldunar fasteignamats.

Ákvæði þetta kemur til móts við Samtök atvinnulífsins sem lagt hafa áherslu á að miklar hækkanir á fasteignamati í einu vetfangi komi sér illa fyrir rekstur fyrirtækja og því þurfi a.m.k. að aðlaga þær í áföngum. Veigamikil rök eru fyrir slíkri mildun, en meðal annars hefur verið nefnt að í mörgum tilvikum eru langtímaleigusamningar í gildi um verslunar- og skrifstofuhúsnæði og húsnæði fyrir léttan iðnað sem verður fyrir einna mestum áhrifum vegna breytinganna.

Þá hefur Samband íslenskra sveitarfélaga sýnt því skilning að umtalsverð hækkun fasteignaskatts í einu vetfangi sé fyrirtækjunum erfið og því sé rétt að milda áhrif breytinganna.

Í samráðsferli um málið var meðal annars rætt um þann möguleika að fresta ákvörðun um breytt fasteignamat um eitt ár til að veita fasteignaeigendum lengri aðlögunarfrest. Í því sambandi var hins vegar bent á að allmargar fasteignir munu lækka í fasteignamati vegna breyttrar aðferðafræði, þótt heildaráhrif breytinganna leiði til umtalsverðrar heildarhækkunar fasteignamats. Þykir ekki rétt að þeir fasteignaeigendur sem eiga von á lækkun fasteignaskatts vegna breyttrar aðferðafræði þurfi að bíða í heilt ár eftir þeirri lækkun. Af þeirri leið sem lögð er til í frumvarpinu leiðir þó að lækkun til þessara fasteignaeigenda kemur ekki að fullu til framkvæmda fyrr en við álagningu á árinu 2017.

Að lokum vík ég að bráðabirgðaákvæði b sem fjallar um úthlutun sérstaks framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Þann 16. maí sl. voru samþykkt hér á Alþingi lög nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Samkvæmt lögunum er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að nýta viðbótariðgjald vegna launagreiðslna á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 til greiðslu inn á höfuðstól húsnæðislána eða til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu mun þetta leiða til lækkunar á útsvarstekjum sveitarfélaga á þessu tímabili vegna meiri sparnaðar í formi séreignar og skattfrelsis iðgjalda og er áætlað tekjutap sveitarfélaga fram að miðju ári 2017 vegna þessa talið nema 3,9 milljörðum króna.

Samkvæmt a-lið 8. gr. tekjustofnalaganna er hluti tekna jöfnunarsjóðs framlag úr ríkissjóði sem nemur 2,12% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs. Áætlað er í dag að tekjur jöfnunarsjóðs samkvæmt þessum lið muni aukast um 2,4 milljarða króna frá miðju ári 2014 til og með ársins 2017 vegna álagningar sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki, svonefnds bankaskatts. Þessi tekjuaukning jöfnunarsjóðs gæti því vegið upp rúmlega helming af áætluðu útsvarstekjutapi sveitarfélaga samkvæmt framangreindu. Yrði þessari tekjuaukningu jöfnunarsjóðs dreift til sveitarfélaganna sem jöfnunarframlagi á grundvelli 12. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga mundi hún hins vegar ekki skiptast í réttu hlutfalli við útsvarstekjutap einstakra sveitarfélaga. Þannig mundi Reykjavíkurborg og fleiri fjölmenn sveitarfélög fá nánast ekkert í sinn hlut en sem dæmi má nefna að hlutdeild borgarinnar í útsvarstekjum á landsvísu er um það bil 38%.

Til að mæta þessu er hér gert ráð fyrir því að framangreindu útsvarstekjutapi sveitarfélaganna á árunum 2014–2017 verði mætt með sérstöku framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þar sem útdeilt verði tekjuauka sjóðsins vegna álagningar sérstaks gjalds á bankastarfsemi frá miðju ári 2014 til ársins 2017. Þessu sérstaka framlagi verður deilt út á grundvelli hlutdeildar sveitarfélaganna í heildarútsvarsstofni ársins á undan.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.