144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[12:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það hefur nú verið nefnt áður í þessum ræðustól að þetta orð „andsvar“ er svolítið erfitt, ég skil það alla vega þannig að verið sé að mótmæla eða eitthvað slíkt. Ég er alls ekki að því, ég held að það sé margt ágætt í þessu en ætla að ræða það síðar.

Svo er það þannig líka, virðulegi forseti, að við vitum oft með litlum fyrirvara hvað kemur hér á dagskrá. Þess vegna segi ég það bara hreint út fyrir mig, stundum er maður ekki búinn að lesa sér alveg nógu mikið til.

Mig langaði að athuga hvort hæstv. ráðherra getur útskýrt fyrir mér þessa breytingu sem varðar fatlað fólk. Eftir því sem ég skil það þá var sérstakt ákvæði, þegar málefnið var fært yfir frá ríkinu til sveitarfélaga, sett um jöfnunarsjóð, vegna þess gífurlega kostnaðar sem varð þegar þessi mál voru færð yfir en nú skilst mér að það eigi að sameina það einhverju öðru ákvæði.

Það er nú þetta sem ég er bara ekki með alveg skýrt í höfðinu á mér, hvernig þetta er akkúrat og hvort hæstv. ráðherra gæti kannski blásið á þessa þoku í höfði mínu.