144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[12:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þetta eru þríþættar breytingar. Sú fyrsta er formbreyting á ráðgjafarnefnd ráðherra varðandi málefni og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, bætt verður í hana tveimur fulltrúum frá sveitarfélögum. Það virðist vera sátt um að hafa þetta svona og eflaust er það til bóta.

Í öðru lagi er verið að bregðast við því að fasteignamat er að hækka gríðarlega á Íslandi. Bæði kemur til að fasteignamatið er reiknað með öðrum hætti en eins hefur fasteignaverð hækkað og er talið að þetta sé óhófleg skattahækkun til heimila í gegnum fasteignaskattinn og þar af leiðandi er breytt reiknireglu fyrir þrjú ár. Að öðrum kosti yrði fasteignaskatturinn svo hár á næsta ári, en með frumvarpinu er verið að draga þessa hækkun fasteignaskatts til ársins 2016, ef ég skil rétt það sem ég les hér frá hvorki meira né minna en fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég ætla að leyfa mér að fara í smátalnastagl.

Hefði verið óbreytt fyrirkomulag fasteignamats hefði hækkunin orðið hækkun um 342 milljónir á árinu 2015, 383 milljónir 2016 og 398 milljónir 2017. Þetta kemur fram í þingskjalinu. Nú er komin ný matsaðferð Þjóðskrár sem þýðir að fasteignaskatturinn á næsta ári mundi hækka um 1.640 milljónir en mun minna á árunum 2016 og 2017, en þó um 435 milljónir annars vegar og 452 milljónir hins vegar sem er meira en fyrra fyrirkomulag gerði ráð fyrir. Matsaðferðin samkvæmt þessu frumvarpi dregur úr hækkuninni, hækkunin verður 492 milljónir á næsta ári en rúmir 1,4 milljarðar árið 2016 og svo 583 milljónir árið 2017. Hækkunin á fasteignaskatti hjá íslenskum heimilum verður með þessum breytingum umtalsverð á næsta ári, eða allt að 500 milljónir sem verða sóttir í vasa landsmanna, það má svo sem segja að þeir sem eru að fá leiðréttingu séu þeir sem borga fasteignaskattinn, nema húsnæðissamvinnufélögin og leigufélögin, en fólk ætti þó að eiga peninga á móti þessum 500 milljónum, en svo hækkar hann á árinu 2016 um næstum því 1,5 milljarða. Svo ber að hafa í huga að í nýrri spá Landsbankans er spáð mjög hækkandi fasteignaverði. Ég tel reyndar tilefni til að það verði mjög fast farið yfir þetta mál á Alþingi og við reynum að átta okkur á hvað er að gerast á fasteignamarkaði. Við vitum að það er mikill skortur á húsnæði og skortur veldur hækkun á verði en jafnframt er það svo, við erum land í höftum, fólk er að leita fjárfestingarkosta, steinsteypa er farsæll fjárfestingarkostur þegar fátt annað er í boði og ég hef á tilfinningunni að þarna sé að byrja að myndast allhressileg bóla, eignamarkaðsbóla og ég tel að við eigum að skoða það og jafnframt að kanna hvort áhrifin á fasteignaskatt heimilanna verði ekki enn meiri en fram kemur í þessu frumvarpi og nóg er það nú samt. Ég hvet til þess að í nefndinni, sem væntanlega er allsherjar- og menntamálanefnd, nema það sé efnahags- og viðskiptanefnd, verði farið mjög rækilega yfir hvernig þessi skattur verður ef spár um breytingar á verði á fasteignamarkaði ganga eftir, því að það verður heldur betur skattheimta sem kemur út úr því.

Ég vil líka spyrja: Hvaða hagræði hafa íslensk heimili af því að fresta hækkun á fasteignaskatti? Í staðinn fyrir að hún lendi á okkur með fullum þunga árið 2015 lendir hún á okkur af fullum þunga 2016. Því er frestað sem er óþægilegt og leiðinlegt. Ég vil að það verði skoðað hvort þessi nýja matsaðferð Þjóðskrár Íslands kalli á það að við endurskoðum þá fyrirkomulagið á fasteignaskattinum en látum þessa hækkun, sem kemur eingöngu vegna breyttra reikniaðgerða, ekki lenda á heimilunum í formi aukinnar skattheimtu. Tölum nú ekki um þegar hér er ríkisstjórn við völd sem telur sig vera að vinna í þágu heimilanna umfram öll önnur stjórnmálaöfl á Íslandi, hefur reyndar staðið sig best gagnvart þeim ríkustu og ég er hrædd um að þetta fari illa með þá. Kannski það kveiki í þeim áhugann til að endurskoða þetta.

Í þriðja lagi erum við að bregðast við heimsmetinu. Til að mæta tekjutapi sveitarfélaga er verið að veita þeim hlutdeild í bankaskatti. Það er jákvætt. En tekjutap þeirra vegna séreignarsparnaðarbreytinganna er 2,4 milljarðar á ári. Stundum verðum við hér á þinginu svolítið talnablind af því að við erum að fjalla um allra handa fjárhæðir. Stundum skipta 30 milljónir öllu máli, stundum skipta 80 milljarðar öllu máli, en það er alltaf mikilvægt að muna í hvaða samhengi fjárhæðirnar eru. Og ef við flettum upp í árbók íslenskra sveitarfélaga sjáum við að heildarútgjöld sveitarfélaga á árinu 2013 voru 208 milljarðar. Aðgerðin þýddi meira en 1% skerðingu á tekjum sveitarfélaga, bara þessi aðgerð, og þetta er 10% af framlögum jöfnunarsjóðs. Sveitarfélögin hafa gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna. Þetta eru ekki gríðarlegir fjármunir sem eru nýttir til að halda uppi grunn- og leikskólum, ýmiss konar félagsþjónustu, þjónustu við eldri borgara, þjónustu við fatlað fólk, félagsþjónustu fyrir þá sem verst standa í okkar samfélagi og þurfa fjárhagsaðstoð og ýmiss konar þjónustu. Þetta er 1% af öllum þeim fjármunum. Og þá — (Gripið fram í.) nú, jæja. Þetta er einhvers konar millifærsla, þetta hefur engin áhrif á tekjurnar. En hvað er fram undan? Það er búið að gefa út vilyrði um hækkun húsaleigubóta, sem ég fagna svo sannarlega og hefði sú aðgerð átt að vera í forgangi. En það þarf að fjármagna það því að það er kostnaður sem leggst á sveitarfélögin. Bankaskattinn er búið að nýta til að mæta tekjutapi sveitarfélaganna og það þarf þá að finna frekari tekjustofna, nema það eigi að skera það af félagsþjónustu sveitarfélaga en ég neita að trúa því. Það hlýtur að eiga að koma til fjármagn fyrir sveitarfélögin til að fjármagna hækkun húsaleigubóta. Og það er eitt sem þarf að skoða þegar þetta frumvarp verður til umfjöllunar.

Ég hef óskað eftir mati á áhrifum tekjuöflunarfrumvarpanna á sveitarfélögin, því að það mat fór ekki fram þótt það hefði átt að fara fram. Það mat er ekki fram komið. En þá þarf nefndin sem mun fjalla um þetta mál að leggjast yfir það. Eru útgjöld sem við erum að leggja á sveitarfélögin, sem þarf að mæta umfram það sem er í frumvarpinu? Hér erum við að leggja til hluta af bankaskatti en við erum ekki að auka tekjur sveitarfélaganna. Við erum aðeins að bæta þeim upp það sem löggjafinn tók af þeim með löggjöf. Það er mjög mikilvægt að farið verði yfir það, því að annars verður það þannig að fátækustu heimilin í landinu, leigufélögin hafa ekki fengið leiðréttingu á höfuðstól skulda sinna, húsaleigubæturnar verða hækkaðar á kostnað annarrar þjónustu sem fólk reiðir sig á og þetta eru hóparnir sem munu lenda harðast úti í matarskattshækkun ríkisstjórnarinnar og þá skiptir engu máli hvort sú hækkun er úr 7% í 12% eða 7% í 11%. Það þarf að halda að fólk sé beinlínis tornæmt ef bjóða á fólki upp á að það sé umtalsverð breyting. Það er bitamunur en ekki fjár. Þetta er sama eðlisbreyting sem er verið að gera. Það er sama hugsun að baki, að leggja þyngri byrðar á þá sem eru í tekjulægri hópum samfélagsins á meðan þeir í tekjuhærri hópum samfélagsins geta aukið neyslu sína á innfluttum varningi á óheppilegum tímapunkti. Þó að ég og minn flokkur styðjum lækkun vörugjalda þá hefði ég viljað sjá hana aftar í forgangi við núverandi aðstæður.

Ég fer fram á það við þá nefnd sem þetta mun skoða að farið verði yfir þróun fasteignaverðs á næstu árum og hvort ekki sé eðlilegt að bregðast við af hálfu löggjafans og draga úr skattheimtu, hvort eðlilegt sé að heimila aukna skattheimtu á heimili þrátt fyrir að aðeins sé um breytingu á reiknireglu að ræða og farið verði yfir það hver verður útgjaldaþörf sveitarfélaganna eftir að Alþingi hefur samþykkt hér fjárlög og tekjuöflun. Er verið að mæta henni? Það er ekki verið að mæta henni með þessu frumvarpi. Hvernig á að mæta henni og hvaða íbúar þessa lands ætla að taka þá hækkun á sínar herðar? Ég bið um að það verði litið til þess að fjármunir verði sóttir þangað sem breiðust eru bökin en ekki sífellt látið eins og aðgerðir sem gagnast þeim betur stöddu séu sérstaklega hagfelldar fyrir þá sem lítið hafa. Það er rangt. Það er hægt að sannreyna með fjöldanum öllum af tölfræði og ég hvet alþingismenn til að afla sér gagnreyndra upplýsinga áður en þeir fara í svo umfangsmikla tekjutilfærslu frá þeim sem minna hafa til þeirra ríkustu hér í samfélaginu.