144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[13:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil í mínu síðara andsvari spyrja ráðherrann um eitt atriði. Eins og kom fram í framsögu hans er þetta ekki í fyrsta sinn sem frumvarpið er lagt fram. Ég sat sjálf í allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta þingi þannig að mér er nokkuð kunnugt um þá umræðu sem var í nefndinni um málið og virtist svo sem samstaða væri um meginþætti málsins.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra varðandi Vegagerðina. Vegagerðin setur upp skilti um allt land en enginn hefur í sjálfu sér eftirlit með því hvað þeir setja á skilti. Það liggur fyrir. Ég hef fengið ábendingar um þetta úr feltinu, ef svo má að orði komast, í millitíðinni. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því að mér hefur ekki gefist ráðrúm til að skima yfir frumvarpið núna í hvelli, hvort þessi sjónarmið hafi verið höfð undir og vænti þess ella að þau verði skoðuð í meðferð nefndarinnar.

Það er afar mikilvægt að það sé stöðugt og formlegt samstarf milli nafnfræðisviðs Landmælinga og Vegagerðarinnar, að það sé einhvers konar samráð þarna á milli. Mér skilst að það hafi verið með lauslegum hætti en það hafi engu skilað, þ.e. það hafi ekki uppfyllt þær væntingar sem menn höfðu til þess samstarfs. Að sumu leyti er þetta ásýnd örnefna fyrir vegfarendur og almenning, þ.e. það sem Vegagerðin setur upp, þannig að allir heimsins korta- og gagnagrunnar mega sín lítils frammi fyrir vegamerkingum ef þær eru ekki í samræmi við þá grunna.