144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[13:52]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið fram aftur þar sem það var ekki útrætt í fyrri umferð ef minni mitt brestur ekki. Það sem kemur mér kannski mest á óvart, svona við skoðun á þessu, er það hvað þetta er stutt og laggott, einungis 11 greinar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar. Þetta viðfangsefni, örnefni, hefur verið viðfangsefni lærðra og leikra öldum saman. Leikir menn hafa tekið saman örnefni hver í sinni sveit sem hefur jafnvel skapað grunn að þeim grunni sem hér á að leggja og viðhalda. Gjarnan hafa komið upp páfar í þessari grein, en það er ekki heimilt að skipa aðalmann lengur en tvö samfelld starfstímabil í örnefnanefnd. Þetta minnir mig dálítið á sovéskt fyrirkomulag við kjör á forseta, þ.e. það má ekki kjósa forseta Sovétríkjanna nema tvö ár og hann verður að vera forsætisráðherra inn í milli áður en hann verður kosinn næst.

Er nokkuð að því að menn séu skipaðir þarna svo framarlega sem þeir hafa hæfi til starfans? Því eins og ég segi hafa í þessari nafnfræði gjarnan komið upp miklir sérfræðingar og mér finnst nauðsynlegt að nýta þekkingu þeirra til hins ýtrasta.

Að öðru leyti ætla ég ekki að tjá mig að sinni. Þetta mál fer til nefndar þegar því er lokið þá kannski tjái ég mig aftur. Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.