144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[13:55]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um örnefni sem eins og fram hefur komið hefur áður verið til umræðu í þinginu og er að mestum hluta viðfangsefni sem ekki hefur valdið miklum titringi í samfélaginu. Kannski er þó verið að halda hér til haga gríðarlega mikilvægum samfélagslegum verðmætum. Þetta eru ekki verðmæti sem við erum vön að ræða hér. Þetta varðar ekki gengi íslensku krónunnar, gjaldeyrisvaraforða eða skuldaniðurfellingar heldur annars konar verðmæti, þ.e. hluta af menningararfinum og íslenskri tungu.

Mig langar undir þessu máli að nefna nokkur atriði. Best væri ef hæstv. ráðherra gæti brugðist við í lok umræðunnar. Í fyrsta lagi er það hvernig frumvarp til laga um örnefni tengist lögum um mannanöfn og er þá örnefnanefndin annars vegar og mannanafnanefndin hins vegar. Þetta varðar allt saman afar viðkvæma starfsemi á vegum hins opinbera sem snýst um að framfylgja íslenskri málstefnu, sem er líka mjög viðkvæmt fyrirbæri, og freista þess á vettvangi ríkisins að stýra eða hafa áhrif með einhverju móti á málþróun. Það er ekki hafið yfir vafa og hefur heldur ekki verið hafið yfir deilur í samfélagi tungumálanna eða þjóðanna hvort slíkt sé í raun og veru hlutverk stjórnvalda. Samspil íhaldssemi og frjálslyndis sem þarna er á ferðinni er áhugavert. Ég held að við finnum öll fyrir því hvernig þessi sjónarmið togast á. Frjálshyggjufólk sem segist ekki vilja neinar miðlægar stýringar á einu eða neinu er kannski íhaldssamt í þessu efni og öfugt, þ.e. þeir sem aðhyllast mikla áherslu á að velferðar- og skólaþjónustu sé sinnt af hendi hins opinbera eru kannski „frjálslyndari“ í þessum efnum.

Þetta er að mörgu leyti mjög áhugavert mál. Við Íslendingar höfum í meginatriðum fetað þá leið að vera tiltölulega íhaldssöm að því er varðar íslenska tungu og þá kannski fyrst og fremst vegna þess hversu nátengd sú umræða var umræðunni um sjálfstæði þjóðarinnar á sínum tíma og það hversu stutt lýðveldissaga okkar er í raun og hversu ríkan þátt íslenskar bókmenntir eiga í rökstuðningi okkar fyrir því bæði fyrr og nú. Þetta tengist líka umræðunni um stöðu íslenskrar tungu sem við höfum rætt hér undir öðrum málum og verður væntanlega líka rætt undir máli þingflokks Bjartrar framtíðar um breytingar á mannanafnalögum. Þetta er allt samhangandi.

Við höfum farið þá leið að vera frekar íhaldssöm á Íslandi. Þó togast þar á gamaldags forskriftarmálfræði um hvað sé rétt og rangt annars vegar og hins vegar málfræði þeirra sem segja að það sé viðfangsefni okkar að horfa frekar á þróunina og gæta að því hvernig hún sé en að segja fyrir um það hvernig hún eigi að verða.

Þetta frumvarp er partur af íslenskri málpólitík, partur af íslenskri málstefnu.

Þá langar mig að beina aðeins sjónum okkar hér að því sem hefur gerst að því er varðar íslensk örnefni, sérstaklega þá þætti sem lúta að heitum sveitarfélaga, þéttbýlisstaða. Mér hefur stundum fundist eins og breytingar hafi orðið án þess að við höfum almennilega haldið vöku okkar. Ég er að tala um elstu stjórnsýslueiningar íslensks samfélags sem voru gömlu hrepparnir, t.d. Skútustaðahreppur og hreppar um allt land sem hafa gengið í gegnum alls konar sameiningar sveitarfélaga. Þar með hafa tiltekin örnefni í raun og veru glatað stjórnsýslulegri stöðu sinni og eru jafnvel ekki til í opinberum textum, eru ekki til í lagatextum o.s.frv. Við erum í raun og veru að tala um örnefni sem hafa haft stöðu í opinberum gögnum, þá er ég að tala um kirkjubókum og því um líku, máldögum og öðru slíku, jafnvel frá landnámi. Þetta gerðist bara fyrir örfáum áratugum, mjög nýlega í raun og veru í okkar tíð. Mér vitanlega var ekki staldrað við þegar þetta gerðist. Ég hef svo sem engar tillögur um það hvernig eigi að bregðast við því að sum þessara örnefna eru farin út úr bæði opinberum textum og almannavitund, þekkingu barna og ungmenna o.fl.

Mig langar að nefna annað sem er grein af þessum meiði, sem eru sameiningar sveitarfélaga. Skemmst er að minnast t.d. Reykjanesbæjar þar sem Keflavík og Njarðvík eru ekki lengur heiti sveitarfélaga. Ólafsfjörður og Siglufjörður — hvar eru þeir? Hvar er Reyðarfjörður og Fáskrúðsfjörður? Og svo framvegis. Maður þarf að lygna aftur augum til þess að tengja við það hvar Fjallabyggð og Fjarðabyggð þessa lands eru vegna þess að þau örnefni eru í raun mjög ung og miklu frekar stjórnsýslulega ákvörðun en þau örnefni sem fyrir eru og urðu til manna á meðal eins og eðlilegast og algengast er um slíkt í sögu þjóðarinnar.

Þetta virkar eins og lítið annes í íslenskri tungu, en þetta er umhugsunarefni vegna þess að þarna er líka um stjórnsýslulegt og miðlægt inngrip að ræða þar sem pólitíkin sem slík og ákvarðanir stjórnmálamanna hafa beinlínis áhrif á þróun tungumálsins.

Þetta er eitt af því sem mig langaði að nefna í þessari stuttu ræðu af því ég held að í meginatriðum sé frumvarpið til góðs.

Ég ræddi hérna aðeins í andsvari við hæstv. ráðherra vandann út af Vegagerðinni. Þetta er dæmi um hægri og vinstri höndina. Það þarf einhver til þess bær aðili að geta gert meira en að benda bara Vegagerðinni á að hún beinlínis fari með rangt mál. Við höfum dæmi um það að örnefni festist breytt í sessi vegna þess að þau voru vitlaust rituð á einhverju skilti. (ÖS: Skógafoss.) Já, við getum nefnt dæmi og örugglega mörg. Þetta veldur vandræðum hjá námsefnishöfundum og fleirum. Þá er ferðamaðurinn með eitt heiti og heimamenn með annað. Það er svo mikill óþarfi að hafa þetta svona. Þetta verður í raun og veru ekki leyst öðruvísi en með formlegu og skýru samstarfi. Það samstarf þarf að fela í sér einhvers konar umboð en ekki bara umboð til ábendinga því að ábyrgðarsvið Vegagerðarinnar er náttúrlega mjög mikið að fara beinlínis með ásýnd örnefna á vegum landsins.

Að öðru leyti vona ég að málið fái góðan og uppbyggilegan framgang í nefndinni. Ég sakna þess raunar sjálf að vera komin í aðra nefnd hvað þetta varðar því að ég hef gaman af þessu máli. Ég vonast til þess og veit raunar að það er gott fólk í nefndinni sem kemur til með að sigla þessu til hafnar.