144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[14:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ábendingar hv. þingmanns varðandi Vegagerðina séu skynsamlegar og færi vel á því í störfum nefndarinnar, ef ég má leyfa mér að gera tillögu þar um, að það yrði skoðað sérstaklega. Það er ótækt ef það eru t.d. villur á skiltum og ekki síðan brugðist við athugasemdum.

Vegna annarra efnisþátta í ræðu hv. þingmanns vil ég segja að það er hárrétt að það er ákveðin togstreita í mótun íslenskrar málstefnu sem má segja að sé ekkert ólík því sem við sjáum stundum í pólitíkinni á milli „frjálslyndra“ sjónarmiða og „íhaldssamra“ sjónarmiða. Ég held þó að það sé ekkert endilega mjög langt á milli þessara hópa. Ég er t.d. í þannig flokki, Sjálfstæðisflokknum, sem er mótaður eða skapaður og stofnaður á grundvelli samkomulags á milli íhaldssamra sjónarmiða og frjálslyndra sjónarmiða sem geta vel lifað saman í sátt og samlyndi ef menn bera virðingu fyrir sjónarmiðum hver annars.

Ég held að bera þurfi virðingu fyrir því sjónarmiði að tungumálið þarf eðlilega sitt svigrúm og um leið þarf að gæta vel að venjum og hefðum. Það þarf að varðveita þær, þær hafa reynst þjóðinni vel og eru um leið líka ákveðið talsamband, ef svo má segja, eða lína til fortíðar sem við getum lesið okkur eftir til þess að skilja kjör og hugmyndaheim fólksins í landinu, þeirra sem á undan okkur hafa gengið. Það ber að varðveita slíkt án þess þó að fara að nálgast tungumálið sem safngrip sem eigi að varðveita sem einhvers konar minnisvarða um líf þjóðarinnar. Þetta getur allt farið ágætlega saman eins og ég bendi á í annars merkilegri sögu Sjálfstæðisflokksins.