144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[14:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég get hins vegar ekki alveg setið þegjandi hjá.

Það er vissulega ekki svo að ekki eigi að breyta og taka utan um það sem þarf. En ég held hins vegar að ef eitthvað hefur reynst okkur vel og gengið ágætlega í gegnum tíðina þá sé ekki nein ástæða fyrir ríkisvaldið og stóra bróður að fara að skipta sér eitthvað sérstaklega af því.

Ég tel að í þessum efnum sem við fjöllum um núna séum við ekki í neinu öngstræti með hvernig örnefni verða til og hvernig þau varðveitast. Ég segi alveg eins og er að ég hef miklar efasemdir um fyrirkomulag af þessu tagi þar sem leiða á þetta í lög. Skipa á fimm menn og konur til tveggja ára í senn og ekki meira en í fjögur ár samfleytt til að vera æðstu dómarar í örnefnum og leiða á í lög að sveitarfélög eigi að hafa frumkvæði að örnefnum, en ef það er utan sveitarfélaga er ráðherra allt í einu orðinn aðalmaðurinn í því að stinga upp á hvað eitthvað á að heita. Ég tel að við, eins og kom fram hjá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni, lærðir og leikir hafi afgreitt slíkt mjög vel. Ég held við ættum frekar að einbeita okkur að því að koma upp einhverri stafsetningarráðgjöf fyrir Vegagerðina þannig að skilti séu rétt stafsett víða um landið frekar en að setja upp kerfi af þessu tagi.