144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[14:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst er til að taka að þetta er ekki alveg ný nefnd eða nýtt verkefni, þ.e. örnefnanefndin, en það eru alveg gild sjónarmið sem hv. þingmaður færir hér fram og eðlilegt að spurt sé.

Ég fór yfir það í framsöguræðu minni að uppi eru vandamál sem snúa að því regluverki sem við búum við og samspili örnefnaskráninga við fasteignaskrár og ýmsar aðrar upplýsingar sem skipta síðan máli hvað varðar réttaröryggi borgaranna. Það er nauðsynlegt að skerpa þar á og tryggja að rétt sé á haldið. Ég rakti það einmitt í máli mínu hvernig breytingar á búsetu í landinu hafa valdið því að upp eru að koma vandamál sem snúa að þessu og þau geta verið nokkuð afdrifarík og snúa enn og aftur að réttaröryggi.

Síðan hitt hvað varðar nafnahefðir og varðveislu þeirra má segja að í því samfélagi sem við lifum nú í með auknum áhrifum alþjóðavæðingar og erlendra tungna á íslenskuna sé vaxandi nauðsyn að halda vel utan um þennan menningararf. Hvað varðar ný örnefni þá er eiginlega tekin sú ákvörðun að færa þetta nær almenningi að öllu jöfnu, þ.e. að þetta gerist á vettvangi sveitarfélaganna og hægt sé að hafa samkeppni um nöfn o.s.frv. Það er í algjöru undantekningartilviki eða mjög sjaldan, virðulegi forseti, sem reynir á aðkomu ráðherra. Það þyrfti að vera eitthvað sem gerist fyrir utan skipulagssvæðin, þ.e. fyrir utan landið sjálft.

Það skiptir líka máli að það er breytt sem áður var þar sem landið var einangraðra og á einstökum einangraðri svæðum var auðveldara að festa í sessi einstök örnefni á ákveðnum fyrirbærum. (Forseti hringir.) Það er flóknara mál í þessum heimi núna þar sem upplýsingaflæði er miklu hraðara og mismunandi heiti koma fram sem geta valdið því að það sé nauðsynlegt, m.a. út af þeim (Forseti hringir.) sjónarmiðum sem ég reifaði hér í upphafi, að hafa aðeins meiri festu á því.