144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[14:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tel auðveldlega hægt að tryggja réttaröryggi fólks hvað varðar búsetu eða annað án þess að setja sérstök lög um örnefni og skipa nefnd sem á að fjalla sérstaklega um þau. Það hlýtur að vera hægt að gera það í öðrum lagabálkum.

Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að við þurfum að gæta að tungumálinu. Tungan er líklega það sem gerir okkur einna helst að þjóð og hefur gert í áratugi. Við þurfum að gæta að því. En að setja það niður í lög með ráðum og ákvæðum um að þessi eigi að gera þetta og hinn hitt — þarna togast á í mér frjálslyndi og íhaldssemi og íhaldssemin er ofan á í þessu máli.

Tökum á sértækum vandamálum eins og réttaröryggi fólksins eða vitlausri stafsetningu á vegaskiltum. Því meira sem ég hugsa um þetta þeim mun óþarfara er frumvarpið. Þetta er óþörf afskiptasemi ríkisvaldsins af gamalli þjóðarhefð. Fólk hefur gaman af því að búa til nöfn og komast saman að niðurstöðu um hvað einhverjir hlutir eða staðir í landslaginu eigi að heita. Af hverju ætlum við að eyða því með því að stofnanavæða það? Upplýsingaflæðið allt hjálpar til þannig að það sem fólki dettur í hug kemst fyrr til annarra en áður.