144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

þróunarsamvinna.

[14:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Þróunarmál eru viðfangsefni sem við Íslendingar eigum að sinna af rausnarskap. Ég tel að við höfum reynt að gera það í gegnum árin. Það er rétt sem hér hefur komið fram, og oft áður, að við sáum okkur tilneydd að bregða út af þeirri braut sem hér hafði verið mörkuð varðandi fjárframlög til þróunarmála, ekki síst vegna efnahagshrunsins sem hér varð. Við töldum einfaldlega fullbratta þá tillögu sem er í gangi. Þó að sú prósentutala sem hér er miðað við, 0,22%, sé ef til vill í hugum margra of lítil — ég get tekið undir það, maður vildi sjá hana hærri — setjum við samt krónutölulega mun meira fé í þróunarmál en lengi hefur verið gert. Samkvæmt fjárlögum fara núna ríflega 4 milljarðar til þróunarmála, og það minnir mig að sé örlítil hækkun frá því sem var 2013 sem þá var met í krónum talið. En það eru prósenturnar sem við eigum að sjálfsögðu að miða við því að það gera aðrar þjóðir.

Til að svara spurningunni um þróun framlaga til þróunarmála sé ég fyrir mér að við stefnum áfram að því að ná þessu markmiði. Ég mun leggja til að það verði gert hægar, það verði gert á lengri tíma, en að þetta verði okkar markmið samt sem áður.

Það er rétt sem hefur komið fram, mjög margar þjóðir setja meiri fjármuni í þetta en við Íslendingar, en margar aðrar þjóðir hafa hafa hins vegar líka brugðist við versnandi ástandi í sínum efnahagsmálum með því að minnka hlutfallið til þróunarmála. Það má nefna Írland, á undanförnum sex árum hefur framlag Íra minnkað um 35%, og Hollendingar hafa nú boðað að þeir muni skera niður sín framlög um 21%. Þá hefur finnska ríkisstjórnin einnig boðað að hún muni draga úr. Á sama tíma horfi ég á það þannig að við munum reyna að bæta í, við munum reyna að snúa vagninum við eftir því sem hagur okkar Íslendinga batnar þegar kemur að efnahagsmálum. Alþjóðleg þróunarsamvinna er einn af hornsteinum þeirrar utanríkisstefnu sem við höfum rekið mjög lengi og þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að sinna henni af fullri alvöru.

Þegar rætt er um aðferðafræði í þróunarsamvinnu, eins og ég skildi hv. þingmann, eru í sjálfu sér ekki mikil áform uppi um að breyta þeirri aðferðafræði sem við notum á vettvangi í þróunarsamvinnu. Við verðum áfram með fjölþjóðlega samvinnu sem við setjum töluvert mikla fjármuni í að sjálfsögðu og svo verðum við á vettvangi, á staðnum, að sinna verkefnum á þeim nótum sem við höfum gert fram að þessu. Það verður eflaust eitthvað rætt hér á eftir, að þó að við stefnum að því að sameina Þróunarsamvinnustofnun og ráðuneytið á einn stað erum við ekki að tala um að það eigi að breyta þeirri aðferðafræði og því eftirliti sem verið hefur í gangi heldur yfirfæra það á allan pakkann, eins og maður segir. Ég lít svo á að við séum að fara inn á þá braut að styrkja þá þróunarsamvinnu sem við reiðum fram.

Það er rétt að við vinnum að nýrri áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu og ég geri ráð fyrir að leggja hana fram á vorþingi. Ég geng út frá því, eins og ég sagði áðan, að það verði litlar breytingar á áherslum frá fyrri áætlunum. Við munum áfram halda uppi öflugu samstarfi við uppbyggingu félagslegra innviða og horfa til sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda, og þá horfum við til þess að geta stuðlað að auknum hagvexti í þessum löndum þar sem við erum að vinna og reynt að útrýma fátækt í þróunarríkjunum.

Eins og ég nefndi áðan munum við leggja til að fara varlegar í hækkanir. Ég held að það sé betra að hafa hægari hækkun á fjárframlögum og reyna að standa við hana í staðinn fyrir að fara mjög bratt. Því er ekkert að leyna að þetta eru mjög metnaðarfull markmið í núgildandi áætlun, við skulum ekki draga fjöður yfir það. Á sínum tíma hafði ég í utanríkismálanefnd fyrirvara við þetta, þegar það var samþykkt hér, og held að við höfum einfaldlega sett markið aðeins of hátt. Það þýðir ekki að við ætlum að draga úr mikilvæginu eða breyta því að við stefnum að því að ná þessu 0,7% framlagi.