144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

þróunarsamvinna.

[14:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Er það ásættanlegt að Alþingi skuli hafa horfið frá einróma samþykkt sinni um að auka fjárveitingar til þróunarsamvinnu? Það var spurning hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Svarið er alfarið nei. Ísland er meðal auðugustu þjóða í heimi og okkur ber siðferðileg skylda til þess að láta af hendi rakna umfram að sem við höfum gert. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þess vegna var það þyngra en tárum taki að það skuli hafa orðið fyrsta ákvörðun núverandi ríkisstjórnar að svíkja fátækustu þjóðir heims um það sem Alþingi hafði einróma lofað. Það var miskunnarlaus og harðneskjuleg ákvörðun og hún var óhæfuverk af hálfu þessarar ríkisstjórnar.

Hæstv. ráðherra talar um að við höfum farið of bratt af stað. Þá er rétt að rifja það upp að ekki einasta var þetta einróma samþykkt heldur breytti Alþingi þeirri áætlun sem ég lagði fyrir það á sínum tíma og það framhlóð hana. Með öðrum orðum, með atkvæði núverandi hæstv. ráðherra, formanns Framsóknarflokksins og formanns Sjálfstæðisflokksins töldu menn árið 2011 að ástandið og horfur væru þannig að hægt væri að gefa í umfram það sem við í þáverandi ríkisstjórn vildum.

Hæstv. ráðherra gerir líka Íra að umræðuefni. Það er eðlilegt að við berum saman Ísland og Írland. Bæði þessi ríki fóru tiltölulega illa út úr bankahruninu 2008. Það er rétt að Írar drógu til baka alveg eins og við, en þeir hafa verið að gefa í núna og hvernig er staðan hjá þeim núna? Þeim hefur ekki gengið jafn vel og okkur að rífa sig upp á síðustu árum. Eigi að síður er staðreyndin sú að þeir greiða 0,49% af landsframleiðslu í þróunarsamvinnu meðan við erum ekki einu sinni hálfdrættingar.

Það langmikilvægasta sem við getum gert varðandi áherslubreytingu í þróunarsamvinnu er að breyta ákvörðun ríkisstjórnarinnar og hverfa frá þessari nískustefnu og þessum nánasarhætti í áherslum okkar sem einkenna núverandi ríkisstjórn varðandi þróunarsamvinnu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)