144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

þróunarsamvinna.

[14:51]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram áhugaverð umræða um þróunarsamvinnu og margt gott komið fram. Ég vil draga fram nokkra mikilvæga punkta í þessari örstuttu umræðu. Þrátt fyrir breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 121/2008 skortir enn upp á að unnið sé að þróunarsamvinnu með heildrænum hætti. Þetta hefur komið fram í tveimur nýlegum skýrslum sem þegar hefur verið vitnað í.

Talsvert hefur verið rætt um framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu. Svo sannarlega megum við gera betur í þeim efnum. Í þessu samhengi vil ég benda á að í stjórnarsáttmálanum kemur fram að stefnt verði að því að veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. En ég vil einnig draga hér fram að mikilvægt er að við sníðum okkur stakk eftir vexti í þessum efnum.

Samkvæmt tillögum fjárlaganefndar munu framlög Íslands til þróunarsamvinnu 2015 nema 0,22% af vergri þjóðarframleiðslu, þ.e. 4,3 milljörðum kr. sem er hæsta framlag málaflokksins í krónum talið til þessa. Framlög til þróunarsamvinnu voru lækkuð um 30% í tíð fyrri ríkisstjórnar sem er samt vel skiljanlegt í ljósi aðstæðna á þeim tíma. En svo það sé sagt hér hefur Þróunarsamvinnustofnun Íslands unnið frábært starf í gegnum tíðina og sameining stofnunarinnar við ráðuneytið mun ekki breyta því hvernig Ísland starfar á þeim vettvangi í framtíðinni. Við viljum gera enn betur og halda áfram að tryggja sérfræðiþekkingu á sviði um þróunarsamvinnu, til að mynda á sviði jarðhitavæðingar í Austur-Afríku svo eitthvað sé nefnt.

Ég tek undir með hv. þm. Óttari Proppé og er sammála því að við eigum að sjálfsögðu að sýna stórhug í þessum efnum. Við verðum samt einnig að gæta þess að gæði verkefna haldist í hendur við fjármagnið og að aukning fjármagns í málaflokkinn sé jöfn og stöðug.