144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

þróunarsamvinna.

[15:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið um þróunarsamvinnu. Það sem ég les út úr henni er að mörgu leyti samhljómur um aðferðafræðina. Ég held að við sem hér höfum tekið þátt séum öll stolt af þeim árangri sem náðst hefur með þeim framlögum sem þó eru til þróunarsamvinnu, að við séum stolt af þeim árangri sem við sjáum. Ég nefndi dæmi í ræðu minni af samstarfslöndum Þróunarsamvinnustofnunar, Malaví, sem ég þekki best og hef kynnt mér best, en líka Úganda og Mósambík. Við erum stolt af þeirri aðferðafræði sem nýtt hefur verið við að meta árangur, ekki bara að senda starfsmenn og sjá hversu mikið fé hefur verið veitt, heldur líka að skoða raunverulegan árangur. Ég held því að við getum verið sammála um þetta. En eins og fram kom í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar þá erum við ekki alveg sammála um hversu háar fjárhæðir við eigum að láta af hendi rakna.

Ég vil brýna hæstv. utanríkisráðherra í þessu efni og við höfum nú átt orðastað um þessi mál áður. Ég veit að það er hörð barátta þegar kemur að því að forgangsraða fjármunum ríkisins og forgangsraða í útgjöldum ríkisins. Þetta er kannski mál sem fæstir hagsmunaaðilar berjast fyrir en um leið fáum við þarna mest fyrir hverja krónu. Þetta er einmitt málið sem við erum ekki með í nærumhverfi okkar alla daga og vissulega er þörfin brýn í nærumhverfinu alla daga. En það getur verið auðveldara að gleyma því því að það er fjær okkur, en um leið er það svo óendanlega mikilvægt. Þó að við séum lítil þjóð þá skiptir það svo miklu máli, líka sem fordæmi fyrir aðrar þjóðir, að við gefum af útgjöldum okkar. Það ætti líka að vera okkur umhugsunarefni að ójöfnuður, ekki bara manna á milli heldur heimshorna á milli, er að mati Sameinuðu þjóðanna stærsta ógnin við frið í heiminum.

Þróunarsamvinna, sem einn af grundvallarstólpum í íslenskri utanríkisstefnu, (Forseti hringir.) er líklega besta leiðin til að stuðla að friði í heiminum með því að stuðla að auknum jöfnuði (Forseti hringir.) heimshluta á milli. Ég hvet því hæstv. utanríkisráðherra til dáða í þessum málum. Þarna eru tækifæri til að stíga stór skref (Forseti hringir.) sem gætu orðið eftirbreytniverð.