144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

náttúrupassi.

[13:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra hér að þetta mál sé fast í þingflokki Framsóknarflokksins. Við skulum vona að það verði fast þar áfram og að framsóknarmenn standi vörð um rétt Íslendinga til frjálsrar umgengni um náttúruauðlindir sem verið hefur í lögum frá því í Grágás. Nú treysti ég á þjóðmenningararf Framsóknarflokksins.

Vandamálið sem við er að etja er ekki það að Íslendingar séu í of miklum mæli að skoða íslenskar náttúruperlur. Vandinn er sá að það er góð og gegn atvinnugrein sem hefur vaxið mjög hratt og vegna þessa hraða vaxtar er gengið of mikið á viðkvæmar náttúruperlur. Leiðin til að takast á við það er að leggja gjald á greinina sjálfa en ekki á íslenskan almenning. Ríkisstjórnin er að fara hér þá leið sem hún fer í öllum málum, það eru settir sérstakir skattar, sérstök gjöld á íslenskan almenning fyrir að njóta sjálfsagðra hluta frekar en að leggja gjöld á greinar sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Það er sá grundvallarveikleiki sem stendur eftir í málinu og hæstv. ráðherra hlýtur nú að hafa útbúið eitthvert eftirlit til þess að passa að þeir sem ekki hafa greitt fyrir passann sinn fái ekki að sjá náttúruauðlindirnar.