144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

náttúrupassi og almannaréttur.

[13:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að við hv. þm. Árni Páll Árnason erum á svipuðum slóðum því að svörin eru ekki komin. Þetta margboðaða frumvarp, sem var efst á verkefnaskrá hæstv. ráðherra þegar hún tók við fyrir hátt í tveimur árum og er tiltölulega einmana á afrekaskrá ráðherrans — er um að ræða mál sem samtök helstu ferðaþjónustuaðila hafa lýst sig andsnúin. Málið lítur þannig út að ráðherra Sjálfstæðisflokksins leggi til að lögreglan sé með eftirlit með almenningi. (Iðnrh.: Hver segir það?) Þið vitið, að við séum komin á þann stað að almenningur á Íslandi geti ekki notið náttúrunnar eins og við höfum gert frá landnámi og við getum vísað aftur í Búnaðarbálk Jónsbókar. Það er það sem við erum að tala um.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi almannaréttur, sem hefur verið tryggður í lögum allt frá Jónsbók og þyrfti að afnema með sérstakri lagabreytingu — hvort hæstv. ráðherra hafi átt í samráði við ráðherrann sem gegnir umhverfis- og auðlindamálum um gerð slíks frumvarps sem er þá óumflýjanlegt. Ef náttúrupassahugmyndin, sem er afspyrnuvond, á að fá brautargengi í gegnum þingið þarf að horfast í augu við að menn ætla að afnema almannarétt. Hefur ráðherrann átt í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra um að afnema almannarétt á Íslandi með löggjöf?

Ég spyr líka hverra hagsmuna hæstv. ráðherra er að ganga þegar hann kemur með tillögu og ber höfðinu við steininn með þessum hætti gegn ferðaþjónustunni eins og hún leggur sig. Hvað er það þá? Af hverju nálgast ráðherrann ekki þetta í sáttahug og nýtir þær augljósu leiðir sem eru fyrir hendi og margbúið er að nefna hér, bæði í sérstökum umræðum og (Forseti hringir.) undir öðrum kringumstæðum í þingsal og úti í samfélaginu? Þetta bara lítur út eins og einhver nauðhyggja.