144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

breyting á lögum um Stjórnarráðið.

[13:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja að áhyggjur mínar af náttúrupassahugmyndinni hafa ekki minnkað við þessi orðaskipti. Ég get þó alla vega fagnað því að ekki stendur til að leggja skatt á berjamó eða svokallaðan berjaskatt. En ég ætla að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um annað áhyggjuefni, sem mér finnst líka stórt, og það eru boðaðar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands sem eiga að fela ráðherrum heimild til að flytja aðsetur stofnana.

Mikið hefur verið deilt um þá ákvörðun, sem var nánast fyrirvaralaus, að flytja Fiskistofu til Akureyrar og eins hefur verið rætt um að flytja Barnaverndarstofu út á land. Það er uggur í mörgum út af slíkum áformum. Ég vil taka fram strax í upphafi að ég hef ekkert á móti því að stofnanir séu úti á landi. Það eru mörg vel heppnuð dæmi um að stjórnsýslustofnanir séu úti á landi. Hægt er að flytja stofnanir vel út á land, það er hægt að gera það á löngum tíma, það er hægt að nota starfsmannaveltu til að gera það. En það þarf að gæta að ýmsu.

Nú langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra, fyrst hann er að boða lagafrumvarp sem á að fela ráðherrum heimild að flytja stofnanir: Hvað stendur til í þessum efnum? Er hæstv. ráðherra til í að sýna betur á spilin? Á að flytja fleiri stofnanir en Fiskistofu og mögulega Barnaverndarstofu út á land og hvernig á að gera það? Hvernig verður frumvarpið? Hver verður umgjörð þessarar heimildar? Á að gera einhverja kröfu um faglegt mat á slíkum flutningum, hvernig á að varðveita sérfræðiþekkingu, hver er hagræðingin, á að gera einhverja hagræðingarkröfu í slíkum flutningum, hvernig á kostnaðarmat að fara fram, hvernig á að gera þetta? Er verið að líta til einhverra fordæma, t.d. Norðmanna, sem hafa mjög skýra umgjörð um það hvernig þeir byggja upp stofnanir og skýra umgjörð um það hver réttindi starfsmanna eru? Hvað stendur til og hvernig á þessi lagaheimild að líta út?