144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

kjaradeila lækna og ríkisins.

[13:58]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég held að ekki sé ofsögum sagt að það sé nánast almenn samstaða hér á Alþingi og í samfélaginu um mikilvægi heilbrigðismála. Það hversu mikilvægur sá málaflokkur er birtist nú ekki hvað síst í nýjum fjárlögum þar sem enn er aukið töluvert á framlög til heilbrigðismála eftir niðurskurð síðustu ára og þar með talið mesta framlag sem nokkurn tíma hefur farið til Landspítalans í sögu hans.

Ég hef verulegar áhyggjur, eins og ég hef lýst áður í þessum ræðustól, af verkfalli lækna. Ég hef nefnt það sérstaklega með hliðsjón af því hversu mikilvæg heilbrigðismálin eru og hversu mikil samstaða er um mikilvægi þeirra hvort ekki væri rétt að reyna að ná saman einhvers konar þjóðarsátt, sátt meðal aðila vinnumarkaðarins og meðal þingmanna um forgangsröðun í þágu heilbrigðismála. Hins vegar liggur ljóst fyrir að enn sem komið er telja einhverjir aðilar vinnumarkaðarins, líklega flestir, að ekki sé hægt að líta á kjaradeilu lækna og ríkisins sem einangrað tilvik sem ekki muni skapa fordæmi alls staðar annars staðar. Það þýðir einfaldlega að við lausn þessa máls líta menn, geri ég ráð fyrir, til heildaráhrifanna. En það er þá líka áminning um mikilvægi þess að undirstrika sérstöðu þessa máls og minna á þá samstöðu sem á að geta náðst um forgangsröðun í þágu heilbrigðisþjónustunnar. En eins og hv. þingmaður veit er það ekki venjan að ráðherrar blandi sér í kjaradeilur ríkisins og þeirra stétta sem verið að semja við hverju sinni.