144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

kjaradeila lækna og ríkisins.

[14:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Alþingi á auðvitað að blanda sér sem minnst í kjaradeilur þó að annarri aðferðafræði hafi verið beitt af núverandi ríkisstjórn. Ég kem hingað upp vegna alvarleika málsins. Heilbrigðiskerfi okkar er í húfi og framtíð þess og ríkisstjórnin verður að taka það mjög alvarlega. Samninganefnd ríkisins á í samningum við lækna, ekki annað launafólk á Íslandi og þeirra framtíðartekjur.

Mig langar þá að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn að endurskoða áætlanir um framlög til heilbrigðismála því að það þarf peninga til þess að leysa þessa deilu. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þetta alvörumál hafi verið rætt í ríkisstjórn, á ríkisstjórnarfundi, og hvort verið sé á vegum ríkisstjórnarinnar að vinna áætlun til að taka á biðlistum (Forseti hringir.) — þess sér ekki stað í fjárlagatillögum — (Forseti hringir.) og áætlun um hvernig eigi að fá lækna aftur til starfa (Forseti hringir.) og nýbakaða sérfræðinga heim aftur (Forseti hringir.) að námi loknu.