144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

kjaradeila lækna og ríkisins.

[14:01]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi spurninguna um endurskoðun framlaga til heilbrigðismála þá hefur ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi endurskoðað þau áform reglulega og iðulega með þeim afleiðingum að bætt hefur verið í. Nú eru framlög til þessa málaflokks raunar miklu meiri en þau voru á síðasta kjörtímabili. Ég minni aftur á sérstöðuna hvað varðar framlögin þetta árið til Landspítalans, sem eru meiri en þau hafa nokkurn tíma verið áður.

Hvað varðar umræðu um þessi mál milli ráðherra þá ræða ráðherrar þetta að sjálfsögðu og hafa af því áhyggjur eins og þingmenn og raunar flestir í samfélaginu að ég tel. Þetta er það stórt og það mikilvægt mál að það veldur flestum áhyggjum.

Og af því að hv. þingmaður spyr út í aðgerðir eða hugsanlega endurskipulagningu og hvata í heilbrigðiskerfinu þá get ég upplýst hv. þingmann um að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið að vinna að (Forseti hringir.) að slíkum áætlunum að undanförnu.

(Forseti (EKG): Forseti vill biðja hv. þingmenn sem eru í hliðarsal að gefa hljóð.)