144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

lánsveð.

[14:05]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns hafa lánsveðin og það samkomulag sem hv. þingmaður stóð að sem fjármálaráðherra fyrst og fremst verið, að mér skilst, á borði fjármálaráðherra eða þess ráðherra sem tók við embættinu af hv. þingmanni þó að það hafi verið ekki beint. Eftir því sem ég best veit hefur þetta verið til skoðunar í fjármálaráðuneytinu.

Ég get hins vegar bent á það sem hefur komið inn á borð félags- og húsnæðismálaráðherra en töluverður fjöldi þeirra sem hafa verið með lánsveð og hafa farið í gegnum greiðsluaðlögun, það hefur reynt á ábyrgðina gagnvart þeim sem veittu lánsveðin og umboðsmaður skuldara hefur lagt sig fram við að athuga hvort þeir sem skrifuðu undir ábyrgðirnar hafi verið upplýstir um þær skuldbindingar sem þeir voru að taka á sig. Í einhverjum tilvikum hefur komið í ljós, þótt ég sé ekki með nákvæma prósentutölu hér kemur það fram í gögnum frá umboðsmanni skuldara, að þeir fengu ekki réttar upplýsingar og hafa þar af leiðandi losnað undan ábyrgðum sínum.

Við höfum síðan hvað annað mál varðar verið að huga að þeim hópi sem hefur misst eignir sínar og staðið eftir með ákveðnar skuldbindingar í framhaldi af því og hvernig sé hægt að leysa úr málum þeirra sem eru í slíkri stöðu. Þegar skipað hefur verið í embætti innanríkisráðherra upp á nýtt geri ég ráð fyrir að við munum eftir áramót kynna tillögu þess efnis.