144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

lánsveð.

[14:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin svo langt sem þau ná. Það er vissulega ánægjulegt að heyra að þetta sé ekki alls staðar og með öllu gleymt og það sé einhver meðvitund um það í félagsmálaráðuneytinu, ráðuneyti húsnæðismála, að þarna situr eftir hópur sem í mörgum tilvikum hefur mjög takmarkaða eða enga úrlausn fengið. Í einhverjum tilvikum kunna málin að hafa leyst í gegnum greiðsluaðlögun eða menn eru í öðrum tilvikum hreinlega búnir að missa húsnæði sitt o.s.frv. En vandinn við þessa stöðu er að menn ganga mjög nærri sér áður en þeir fara að láta lán lenda í vanskilum sem hvíla á eignum annars fólks, þó að það séu ættingjar eða vinir. Ég þekki dæmin um það.

Mér finnst það mjög grátlegt að ríkisstjórnin standi þannig að þessu að þiggja ekki einu sinni þó þá fjármuni sem lífeyrissjóðirnir voru búnir að bjóða í púkkið til að taka á þessum vanda, en þeir fara forgörðum ef ekki er reynt að byggja á einhvers konar þátttöku lífeyrissjóðanna og samkomulagi um aðgerðina sem slíka.

Ég skora því á hæstv. félagsmálaráðherra að heita okkur því þegar skuldaniðurfærslan er komin og hefur birst (Forseti hringir.) í reynd að skoða þá hvað stendur eftir af málefnum þessara nokkur þúsunda sem voru með lánuð veð. Það ætti ekki að ríða baggamuninn um þótt eitthvað verði gert fyrir þá í lokin.