144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, og breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Nefndarálitið er að finna á þskj. 620 og vísa ég til þess þar sem ég mun ekki fara yfir skjalið frá orði til orðs heldur rekja helstu efnisatriði. Breytingartillaga meiri hlutans er á þskj. 621.

Málið var lagt fram 9. september og var rætt á Alþingi 16. og 17. október. Efnahags- og viðskiptanefnd fékk málið til umfjöllunar og fjallaði um það á tíu fundum. Á fund nefndarinnar komu 37 gestir og 48 umsagnir bárust. Ég vil þakka gestum og umsagnaraðilum fyrir þeirra framlög til málsins.

Með frumvarpinu er lagt til að draga úr bili milli skattþrepa um nær þriðjung til að draga úr óæskilegum hvata til undanskota. Almenna virðisaukaskattsþrepið verði lækkað úr 25,5% niður í 24% og neðra þrep virðisaukaskatts hækki úr 7% í 12%. Lagt er til að fækka undanþágum og virðisaukaskattsskylda vegna fólksflutninga í afþreyingarskyni verði tekin upp. Vörugjöld verði aflögð til að einfalda skattkerfið og draga úr neyslustýringu. Barnabætur hækki um 1,3 milljarða kr. til að koma til móts við barnafjölskyldur með lág laun sem verja miklum hluta útgjalda í matvörur.

Fyrir nefndinni kom það sjónarmið fram að frumvarpið mundi ekki ná því markmiði að einfalda skattkerfið. Að mati meiri hlutans er óhætt að fullyrða að veruleg einföldun felist í því að fella brott lagabálk um vörugjald sem varðar rúmlega 600 tollnúmer. Útreikningar og álagning vörugjalds eru flókin mál og valda því að fjöldi ársverka fer í vinnu við að standa skil á þeim auk þess sem þau kalla á víðtækt eftirlit af ríkisins hálfu.

Frumvarpið í heild felur í sér skattalækkun og lækkun á verðlagi. Verði frumvarpið að lögum með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til munu ráðstöfunartekjur neytenda batna um 6,2 milljarða, þrátt fyrir hækkun neðra þrepsins. Lækkun efra þreps virðisaukaskatts skilar neytendum 7,5 milljörðum kr. Niðurfelling almennra vörugjalda skilar neytendum 6,5 milljörðum kr. og hækkun barnabóta skilar tekjulitlum barnafjölskyldum 1 milljarði. Að auki leggur meiri hlutinn til umtalsverðar breytingar á frumvarpinu sem nánar verður gerð grein fyrir hér á eftir. Ríkisstjórnin og nefndarmenn munu á komandi mánuðum halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið með frumvarpinu og vinna að breikkun skattstofns virðisaukaskatts og endurbótum á virðisaukaskattskerfinu.

Áætlað er að breytingar á virðisaukaskattskerfinu og niðurfelling vörugjalds hafi þau áhrif að verðlag lækki um 0,35%. Það hefur áhrif til lækkunar á verðtryggðum skuldum heimila um hátt í 5 milljarða eða um 50 þús. kr. á heimili. Í athugasemdum við frumvarpið er vísað til tveggja skýrslna sem hefur verið litið til í starfi stýrihóps sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði til að vinna tillögur að einfaldara virðisaukaskatts- og vörugjaldskerfi. Annars vegar er um að ræða skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá apríl sl., en þar er mikið bil á milli virðisaukaskattsþrepa sagt hvetja til verðtilhliðrana og undanskota. Þá bendir sjóðurinn á að það sé mjög dýr leið að lækka skatt á matvöru til allra þjóðfélagshópa í því skyni að koma til móts við tekjulág heimili. Skilvirkari leið væri að leggja í beinni stuðning við slík heimili í gegnum félagslegt kerfi. Hins vegar er um að ræða óbirta skýrslu OECD sem ber enska heitið The Distributional Effects of Consumption Taxes in OECD Countries. Í henni er lagt mat á hvernig til hafi tekist við framkvæmd virðisaukaskatts í 21 ríki. Bendir skýrslan til þess að lækkun skattþrepa sé verulega óskilvirkt tæki þegar kemur að því að rétta þeim heimilum hjálparhönd sem eru tekju- og eignalægri þar sem stór hluti niðurgreiðslu sem felst í lækkun skattþrepa kemur þeim til góða sem ekki þurfa á því að halda í eins ríkum mæli. Telja skýrsluhöfundar að beinni aðstoð við hina verr stæðari gagnist þeim betur og sé þjóðfélaginu hagstæðari.

Breytingar á virðisaukaskattskerfinu þurfa að eiga sér stað með varfærni að leiðarljósi. Markmið frumvarpsins er einföldun og aukin skilvirkni skattkerfisins en einnig skattalækkun fyrir alla tekjuhópa. Hækkun neðra þrepsins, lækkun efra þrepsins, afnám almenns vörugjalds, þarf í heild sinni að fela í sér skattalækkun. Fyrir nefndinni komu fram efasemdir um að þetta markmið væri nægilega tryggt í tilfelli tekjulágra heimila. Til að taka af allan vafa í því efni leggur meiri hlutinn því til að skatthlutfall neðra þrepsins verði 11% í stað 12% auk þess sem ríkisstjórnin hefur lagt til að á útgjaldahlið fjárlaga verði aukin framlög til húsaleigubóta og aukin framlög til lækkunar á greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði og húshitunar á köldum svæðum.

Áhyggjum var lýst fyrir nefndinni af þeim áhrifum sem hækkun neðra þreps virðisaukaskatts úr 7 í 12% mundi hafa á bókaútgefendur, rithöfunda, útgefendur og flytjendur tónlistar og rétthafa í sjónvarps- og tónlistariðnaði. Meiri hlutinn hefur skilning á áhyggjum framangreindra aðila. Með því að gera tillögu um hækkun neðra þrepsins í 11% í stað 12% er dregið úr fyrirhugaðri hækkun um fimmtung. Sú breyting að viðbættri lækkun efra þrepsins og afnámi vörugjalda mun auka ráðstöfunartekjur neytenda, m.a. til bókakaupa. Meðal nefndarmanna kom fram almennur vilji til að leita fleiri leiða til að bæta stöðu þessara greina á næstunni

Greining á áhrifum frumvarpsins á útgjöld mismunandi tekjuhópa kemur fram í töflu og línuriti í þingskjalinu. Fram kemur að breytingin er hagstæð fyrir allar tekjutíundir og nemur lækkun útgjalda sem hlutfall af ráðstöfunartekjum að meðaltali um 0,35%.

Gagnrýni kom fram um að orðalag frumvarpsins um fólksflutninga í afþreyingarskyni væri ekki nógu skýrt og fyrirsjáanlegt að ágreiningur mundi skapast um túlkun þess. Meiri hlutinn leggur til nokkuð viðamiklar breytingar á frumvarpinu sem unnar voru af fjármála- og efnahagsráðuneytinu að höfðu samráði við Samtök ferðaþjónustunnar. Nefndin fékk gesti á sinn fund og ræddi breytingarnar við þá. Fram kom að verð væri auglýst út næsta ár og því leggur meiri hlutinn til að breytingarnar taki gildi 1. janúar 2016.

Meiri hlutinn gerir sér grein fyrir því að með þeim tillögum sem raktar verða hér á eftir næst ekki að leysa úr öllum þeim viðfangsefnum sem tengjast virðisaukaskatti á ferðaþjónustu. Áfram er því tilefni til að skoða stöðu greinarinnar og hvernig starfseminni verði best komið fyrir innan virðisaukaskattskerfisins.

Varðandi fólksflutninga leggur meiri hlutinn til að undanþága fólksflutninga frá virðisaukaskatti taki eftirleiðis til almenningssamgangna, ferðaþjónustu fatlaðs fólks og skólaaksturs barna. Að auki er lagt til að akstur leigubifreiða verði áfram undanþeginn virðisaukaskatti. Með orðalagi breytingartillögunnar er gert ráð fyrir því, eins og í frumvarpinu, að hvers konar flutningur fólks í afþreyingarskyni, svo sem hestaferðir, snjósleðaferðir, fjórhjólaferðir, hvalaskoðunarferðir og útsýnisferðir, verði virðisaukaskattsskyldur.

Lagt er til að þjónusta ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda verði virðisaukaskattsskyld. Þjónusta sem erlendar ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur nýta á Íslandi mun bera virðisaukaskatt. Lagt er til að sala á þjónustu eða vöru sem ferðaskrifstofur og skipuleggjendur og ferðafélög, innlend sem erlend, selja falli undir skattskylda veltu ef þjónustan og varan er nýtt hér á Íslandi. Skattskyldan nær bæði til þjónustu ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda við milligöngu um viðskipti hér á landi og endursölu ferðaskrifstofa á vörum eða þjónustu hér á landi.

Þjónusta íslenskra ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda sem nýtt er utan Íslands mun falla undir undanþegna veltu. Breytingin mun ekki hafa áhrif á skattgreiðslur þeirra sem hafa með höndum fólksflutninga milli landa því sömu skattalegu stöðu þeirra er nú náð með frjálsri skráningu á virðisaukaskattsskrá. Lagt er til að undanþága sjúkraflutninga frá virðisaukaskattsskyldu sé tiltekin með undanþágu annarrar heilbrigðisþjónustu í 2. gr. laganna og hún þannig tryggð.

Tillaga er gerð til að afmarka með skýrari hætti en nú er undanþágu íþróttastarfsemi frá virðisaukaskattsskyldu. Undanþáguna má flokka í fernt. Í fyrsta lagi tekur hún til skipulagðrar íþróttastarfsemi, í öðru lagi tekur hún til aðgangs að íþróttaviðburðum, í þriðja lagi tekur hún til aðstöðu til almenningsíþrótta og í fjórða lagi tekur hún til aðgangseyris að líkamsræktarstöðvum. Undanþágan tekur bæði til æfinga- og keppnisgjalda íþróttaiðkenda og aðgangseyris áhorfenda að íþróttamótum, kappleikjum og íþróttasýningum.

Í breytingartillögunni felst m.a. að aðgangur að afþreyingu í ýmiss konar leikjasölum verður virðisaukaskattsskyldur og sama gildir um aðgang að baðaðstöðu annars staðar en í hefðbundnum íþróttamannvirkjum, sundlaugum eða líkamsræktarstöðvum.

Breytingar þær sem lagðar eru til hafa í för með sér að virðisaukaskattsskyld verður ýmis þjónusta sem hingað til hefur verið undanþegin. Lagt er til að sú þjónusta falli undir lægra þrepið og verði með 11% virðisaukaskatti. Þóknun ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og ferðafélaga fellur þó undir hærra hlutfallið að því leyti sem hún er um milligöngu viðskipta sem tilheyra hærra skatthlutfallinu. Þannig falli t.d. þóknun fyrir milligöngu um leigu lausafjármuna án stjórnanda, svo sem bílaleigubíla, undir hærra skatthlutfallið.

Lagt er til að skotið verði styrkari stoðum undir samtímaeftirlit með virðisaukaskatti. Í fyrsta lagi er lagt til að gerðar verði þær breytingar að ríkisskattstjóra, auk skattrannsóknarstjóra ríkisins, verði heimilt að láta lögreglu stöðva atvinnurekstur skattskylds aðila vanræki hann að nota tilskilið söluskráningarkerfi eða því sé verulega áfátt. Þá er einnig lagt til að ríkisskattstjóra verði færðar þær heimildir sem skattrannsóknarstjóri hefur haft til að beina fyrirmælum til skattskylds aðila um úrbætur vanræki hann að færa tilskilið bókhald samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laganna. Loks er lagt til að kveðið verði á um heimildir ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra ríkisins til að láta lögreglu stöðva atvinnurekstur skattskylds aðila hafi hann ekki tilkynnt um starfsemi sína til ríkisskattstjóra eða aðili sætt áætlun virðisaukaskatts í tvö uppgjörstímabil eða fleiri.

Meiri hlutinn leggur til að sex nýir kaflar bætist við frumvarpið og varða þeir niðurfellingu almenns vörugjalds. Breytingarnar eru eingöngu framkvæmdalegs eðlis og unnar af fjármála- og efnahagsráðuneytinu að höfðu samráði við embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra. Við brottfall laga um vörugjald munu tilvísanir í þau lög í öðrum lögum þarfnast breytinga.

Virðulegi forseti. Fyrir nefndinni kom það sjónarmið fram að skatta- og gjaldalækkanir skili sér oft illa út í verðlag á meðan hækkanir skili sér fljótt. Ef ákvörðunartaka um skattbreytingar verður látin stjórnast af þessu sjónarmiði verða skattar sjaldan lækkaðir. Hins vegar er ljóst að skatta- og gjaldalækkanir skila sér oft seinna út í verðlag en hækkanir Til að stuðla að því að þær lækkanir sem í frumvarpinu felast skili sér út í verðlag þurfa neytendur, stjórnvöld og þrýstihópar að vera vakandi, fylgjast vel með verðþróun og beita þeim úrræðum sem þeir hafa til að knýja á um að lækkanirnar skili sér. Meiri hlutinn hvetur stjórnvöld, aðila vinnumarkaðar og hagsmunasamtök til að taka höndum saman og tryggja að skatta- og gjaldalækkanir frumvarpsins skili sér að fullu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á þskj. 621. Undir nefndarálitið rita þann 28. nóvember eftirtaldir hv. þingmenn: Frosti Sigurjónsson, formaður og framsögumaður, Pétur H. Blöndal, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason.