144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Rannsóknir sýna og sýnt var fram á það fyrir nefndinni að hækkanir skila sér að fullu og strax en lækkanir skila sér seint og illa. Þess vegna kemur þessi hækkun á matarskattinum af fullum þunga á heimilin í landinu. Það er áhyggjuefni að formaður efnahags- og viðskiptanefndar lýsi því hér yfir að það komi til greina af hálfu Framsóknarflokksins að hækka matarskattinn enn frekar, (Gripið fram í.) úr 11 í 14%, ef einhverjar útreiknaðar mótvægisaðgerðir verði með í þeim pakka líka. Lækkanir á einhverjum vörum og vörugjöldum ganga upp í excel-skjali en skila sér seint og illa í raunveruleikanum, eins og við þekkjum í ýmsu verðlagi sem tengist gengi til að mynda, eins og við þekkjum í verðlagningu á olíu. Eins og rannsóknir sýna þá skila hækkanirnar sér að fullu en lækkanirnar seint og illa.

Hvers vegna er þá hv. formaður nefndarinnar að leggja til (Forseti hringir.) þessa verulegu hækkun á nauðsynjum fyrir heimilin í (Forseti hringir.) landinu?