144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu hans. Hann kemur inn á það í nefndaráliti sínu að ágætissamstaða hafi verið í nefndinni um ýmsa þætti, t.d. niðurfellingu vörugjaldanna, lækkun efra þrepsins og barnabæturnar og væntanlega breikkun stofnsins til að taka inn ferðaþjónustuna þótt nefndinni hafi því miður ekki unnist nægur tími til þess að binda endanlega hnúta þar. Ég reikna með að nefndin muni vinna áfram í því.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann hvort það sé hans skoðun að þessar stofnanir, OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, hafi rangt fyrir sér þegar þær segja að það sé óhagkvæm leið til að hjálpa þeim verst stöddu, er hann sammála því, að lækka skatt, virðisaukaskatt, til allra þjóðfélagshópa? Er það hagkvæm eða óhagkvæm leið? Er hann á því að hugsanlega ætti að lækka matarskattinn meira? Hvað vill hv. þingmaður gera?