144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fæ ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en að hann sé nokkuð sammála því að það sé óhagkvæm leið að nota lægra virðisaukaskattsþrep til að koma þeim heimilum til hjálpar sem eru verr stödd og að betra sé að nota beinar mótvægisaðgerðir og hann sé þá sáttur við að hækka matarskattinn ef mótvægisaðgerðir eru skilvirkar. Ein mótvægisaðgerðin sem mér fannst hv. þingmaður kannski ekki ræða nægilega um er lækkun efra þrepsins. Eins og hv. þingmanni er kunnugt um kostar hækkun lægra þrepsins heimilin 8,8 milljarða en þau fá 7,5 milljarða til baka með lækkun efra þrepsins. Það er þá mínus fyrir heimilin upp á 1,3 milljarða. Til að bregðast við því eru vörugjöldin felld niður sem eru 6,5 milljarðar. Barnabætur eru auknar um 1 milljarð og svo, eins og fram hefur komið, er lagt til húshitunar, húsaleigubóta og hvaðeina.

Það er bundið þannig um hnútana að öll heimili eiga að koma betur út, það er lagt vel í það. En hvað er til ráða ef lækkun efra þrepsins skilar sér ekki til neytenda? (Forseti hringir.) Hefur þingmaðurinn þá tillögu að freista þess ekki að lækka það?