144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu: Það er hugsanavilla að horfa á það, eins og hv. þingmaður orðaði það, að 6,2 milljarðar verði eftir í hagkerfinu. Það segir okkur ósköp litla sögu. Ríkisstjórnin er líka búin að skilja 6,2 milljarða eftir í hagkerfinu með lækkun veiðigjalda, svo dæmi sé tekið. Það nýtist ekki lágtekjufólki á nokkurn hátt. Það að skilja peninga eftir í hagkerfinu er ekki endilega til þess fallið að skila félagslegum árangri. Ríkisstjórnin ákvað að hækka álögur á nauðsynjar og lækkanirnar eru á öðrum þáttum en nauðsynjum. Það veldur því að þeir sem þurfa meira á nauðsynjum að halda, lágtekjufólk sem hefur ekki ráðrúm til að kaupa neitt annað en nauðsynjar, munu fara illa út úr þessari breytingu. Fyrir því eru færð gild efnisleg rök.

Sleifarlagið sem ég vísa til í meðferð málsins milli umræðna er sú staðreynd að þó að seint og um síðir hafi tekist að svínbeygja Framsóknarflokkinn til að kyngja fyrri yfirlýsingum með því að lækka 12% í 11% var ekki haft fyrir því að setjast yfir málið með aðilum vinnumarkaðarins. Hvers konar vinnubrögð eru það eiginlega með kjarasamninga lausa á næstu mánuðum? Hvaða innlegg er það í gerð kjarasamninga? Hvaða innlegg er það í samfélagsfrið? Auðvitað er það bara til þess fallið að skapa úlfúð og erfiðleika og draga úr trausti á þessari aðgerð.

Eftir stendur líka stóra spurningin: Ætlar Framsóknarflokkurinn að samþykkja næsta fjárlagafrumvarp þegar hæstv. fjármálaráðherra kemur með tillögu um að hækka neðra þrepið upp í 14%? Verður þá búið að víkka kokið á framsóknarmönnum nógu mikið?