144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu að vanda. Ég hef tekið eftir því í þessari umræðu að við þurfum sífellt einhvern veginn að taka á því hvað sé nauðsynjavara og hvað ekki. Við tölum um sykurskatt og matarskatt og svo framvegis. Nú virðast allir vera sammála um að sykur sé ekki nauðsynjavara, að sama skapi sammála um að matur sé nauðsynjavara. Ég hef bent á það hér varðandi mat að ekkert verður eiginlega meiri nauðsynjavara en matur. Fólk lifði tugþúsundum árum saman án rafmagns og varanlegs húsnæðis, en það hefur aldrei lifað án matar, ekkert spendýr lifir án matar.

Það sem mér finnst alltaf svolítið óþægilegt í þessari umræðu eru skattþrepin. Þau eru tvö. Ég velti fyrir mér hvernig Alþingi eigi að geta forgangsraðað því hvernig við viljum að samfélagið eigi að vera. Ég tek eftir því að við höfum hluti sem eru undanskildir virðisaukaskatti. Það eru atriði sem við á hinu háa Alþingi höfum ákveðið að séu nógu mikilvæg, þar á meðal starfsemi rithöfunda og tónskálda, sem ég tel gott, persónulega finnst mér það gott, en það er bara persónulegt mat vegna þess að það vill svo til að ritstörf eru eitthvað sem Íslendingar telja að standi sér nærri. Hvers vegna ekki kvikmyndagerð? Hvers vegna ekki hugbúnaðargerð? Hvers vegna er hugbúnaðargerð ekki eitthvert sérstakt íslenskt fyrirbæri sem við viljum verja sérstaklega með skattaívilnun? Ég velti þessu fyrir mér. Á hvaða forsendum eigum við að taka þessar ákvarðanir? Hvernig á Alþingi að geta út frá öðru en geðþótta ákvarðað hvað eigi heima í hvaða skattþrepi nema út frá grundvallarsjónarmiðum eins og gilda t.d. um mat? Það er einfalt með mat. Það er ekki jafn einfalt þegar kemur að listsköpun eða hugverkasköpun eða atvinnugreinum eða einhverju því um líku.

Þess vegna velti ég fyrir mér, þar sem hv. þingmaður er mikill áhugamaður um (Forseti hringir.) skattamál og hvernig við þurfum að nota (Forseti hringir.) skatta, hvernig hann sér fyrir sér (Forseti hringir.) að Alþingi geti forgangsraðað (Forseti hringir.) eftir einhverju öðru en geðþótta. (Forseti hringir.)