144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir skelegga ræðu hans. Hann talar af mikill reynslu og hefur fengið að kljást við flókið virðisaukaskattskerfi í langan tíma og í mikilli nálægð. Við erum um margt sammála og mér fannst margt gott í ræðunni, en ég ætla svo sem ekki í neinar hugmyndafræðilegar þrætur í þessu andsvari. Ég ætla hins vegar að víkja að bókaútgáfunni.

Ég deili áhyggjum mínum af stöðu bókaútgáfunnar. Ég má ekki til þess hugsa að hún lendi í vanda. Það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á, þeir sem tala fyrir bókaútgáfunni komu á fund okkar í nefndinni og lýstu áhyggjum sínum. Það eru sannarlega vond dæmi, t.d. frá Eystrasaltsríkjum þar sem virðisaukaskatturinn var hækkaður og fór illa með bókaútgáfuna. Svo eru það okkar litla málsvæði og tungumálið og gróskan og fjölbreytnin sem hafa einkennt bókaútgáfu lengi og lesmenningin hér á landi.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann fyrir sér út frá reynslu sinni að við leysum málefni bókaútgáfunnar? Mun hún þola þessa hækkun? Ég vil hreinlega skoðun hans á því.