144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef miklar áhyggjur af því. Ég held að bókaútgáfan megi ekki við neinu og minna en engu í raun, hún standi mjög veikt fyrir af ýmsum ástæðum. Það er auðvitað oftast sagt að það sé í raun kraftaverk hversu mikið hefur verið gefið út af bókum á Íslandi og hvað okkur hefur, þrátt fyrir allt, tekist að standa að blómlegri menningu á þessu litla mál- og menningarsvæði sem við erum. En ég held við verðum að gera ráð fyrir því að þetta sé brothætt og þetta má ekki við miklu.

Ég segi alveg hiklaust að frekar en að hækka virðisaukaskatt á bókaútgáfu og bækur ættum við að fella hann niður. Reyndar mundi sennilega þurfa að endurgreiða bókaútgefendum innskattinn til þess að það kæmi nógu vel út. Það er þannig. Þeir hafa notið hagstæðs umhverfis, lágt þrep í vaski, 7% eins og ég fór yfir hér áðan, hefur þýtt tiltölulega hagstætt skattumhverfi að þessu leyti vegna þess að innskatturinn fæst allur dreginn frá lágum útskatti, það er hagstætt fyrirkomulag.

Þetta snýst við yfir í umtalsverðan nettóskatt með þessari hækkun, þó að hún sé bara í 11%, það er alveg ljóst. Við getum deilt um það hvort það eru 3, 4% eða hvað það er, en þetta hefur ekki verið langt frá 0% eins og það hefur verið fram að þessu, þannig að við verðum að reikna með að þetta sé að mestu leyti nettóaukin greiðsla og því eru mjög mikil takmörk sett, held ég, hverju af því er hægt að velta út í verðlagið. Það er bara reynslan. Það er ekkert svigrúm fyrir hendi þegar kemur að dýrari bókaútgáfu, góðbókmenntum og öðru slíku. Það er kannski hægt gagnvart einstöku söluháum reyfurum og kiljum að hafa eitthvað upp úr því og hugsanlega þola þær eitthvað hærra verð, en ég held að það eigi almennt ekki við um dýrar bækur þar sem menn eru í miklu basli með að reyna að halda verðinu þó þannig niðri að það seljist eitthvað og gera það yfirleitt samt upp með tapi.