144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargóð svör og trúi því og vona að við getum skoðað málefni bókaútgáfunnar enn frekar. Auðvitað er útgáfa bóka af ýmsu tagi, eins og fræðibóka, barnabóka og fleiri bóka af því tagi, mjög viðkvæm fyrir verðbreytingum, það er vitað. Það eru söluhærri bækur sem jafnvel fjármagna útgáfu slíkra bóka.

Mig langar hér í seinna andsvari að spyrja hv. þingmann. Það er ljóst að undanfarin ár hefur virðisaukaskattskerfið verið að gefa eftir og er tímabært að fara í gagngerar kerfisbreytingar. Hvernig sér hv. þingmaður helst þær breytingar? Sér hann ekki þessar skattkerfisbreytingar núna, margar hverjar, (Forseti hringir.) sem jákvæðar?