144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að til dæmis tvímælalaust varðandi ferðaþjónustuna sé framför í því að fella hana saman og sem mest í heilu lagi inn í eitt samfellt skattumhverfi af þessu tagi. Það vita allir að það að vera að gera upp nokkurn veginn samkynja rekstur í fyrirtæki, jafnvel á þremur skattstigum, lágt þrep og hátt þrep, er ekki góð blanda. Ein af ástæðum þess að vaskurinn hefur að einhverju leyti verið að leka hjá okkur er auðvitað þessi misráðna breyting 2007 og síðan aðstæðurnar í þjóðfélaginu. Þær þrýsta á, við vitum það. Svona erfiðleikar þrýsta yfirleitt á um það að menn noti allar smugur sem mögulegar eru. Þess vegna þarf að huga vel að því. Ég hef fullan hug á að taka þátt í slíkri vinnu ef hún er í boði.

Ég vil svo í lokin segja aftur um menninguna að auðvitað mundu skipta máli myndarleg framlög, stuðningsframlög við menninguna á öðrum sviðum í gegnum til dæmis sjóði menningar og lista sem við höfum og voru sumir stofnaðir á síðasta kjörtímabili til að styðja við hina fjölbreyttu flóru skapandi greina. (Forseti hringir.) Gleymum því ekki að þar erum við með stóriðju í höndunum sem gefur mikið af sér, skapar mikil verðmæti, þannig að við skulum ganga fram af verulegri gát gagnvart því (Forseti hringir.) gulleggi sem við þar eigum, menningu og listum í landinu.