144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að þetta verði mjög þungt högg fyrir bókaútgáfu og aðra menningarútgáfu og starfsemi.

Það var rökstutt ágætlega fyrir nefndinni, þegar fulltrúar bókaútgefenda komu fyrir hana og útskýrðu að í 7% virðisaukaskatti fengju þeir það mikið af innskattinum til baka að það kæmi bara ágætlega út fyrir þá. Til dæmis mundi 0% skattur og engin endurgreiðsla á innskatti vera verra fyrirkomulag fyrir bókaútgefendur, eins og ég skildi það. En þegar þeir fara upp í 12% — það var annað dæmi, auðvitað aðeins skárra með 11%, þá er útskatturinn farinn að taka verulega í og endurgreiðslan á innskattinum nægir ekki til að dekka það. Þannig að nú byrjar bókaútgáfan að borga verulegan skatt og þetta er ekki mikil velta í þessu og það skiptir verulegu máli.

Ég skynjaði andrúmsloftið í nefndinni þannig við umfjöllun málsins að ríkur vilji væri til að reyna að koma til móts við bókaútgáfuna og menninguna í þessu. Mér finnst stundum eins og hindranir í þá átt séu einhvers staðar annars staðar, fyrir utan veggi fundarherbergisins. Ég vona því að til dæmis myndist stemning fyrir því á milli 2. og 3. umr. um fjárlög að setja verulegar upphæðir í eitthvað sem skiptir máli, í Bókasafnssjóð rithöfunda til dæmis, í verkefnissjóði listarinnar þar sem hægt er að koma fjármunum í þann farveg að þessar greinar, sem verða hér fyrir verulegu höggi, séu styrktar. Það má ekki vera niðurstaðan úr þessu að verð á nauðsynjavörum, (Forseti hringir.) verð á mat og bókum bara hækki, punktur.