144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef hv. efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði ekki um báða áfanga hækkunarinnar á matarskatti, bæði hækkunina úr 7% í 11% og hækkunina úr 11% í 14%, þá held ég að nefndin hljóti að þurfa að gera það á milli 2. og 3. umr. Það verður auðvitað að skoða áhrif þessara skattbreytinga í heild sinni en ekki bara fyrri áfangann.

Aðeins um undanþágur og þessa þætti til einföldunar sem við hv. þingmaður erum sammála um að eru mikilvægir. Ég spyr hvort það hafi komið til umfjöllunar í nefndinni, það sem aðeins var rætt hér í 1. umr. í þingsalnum sjálfum, sem er undanþága frá virðisaukaskatti á laxveiðar, hvort nefndin hafi skoðað möguleika á því að fella burtu þá undanþágu og hvort hún skjóti ekki nokkuð skökku við þegar verið er að ákveða að hækka verðlag á nauðsynjavörum fyrir heimilin í landinu að þessi þáttur sé undanþeginn eins og verið hefur.

Síðan, af því að bókaskattinn bar á góma, þá hef ég kannski ekki síður haft áhyggjur af dagblöðunum vegna þess að þetta er jú skattprósentan líka fyrir prentað mál þar. Þar hefur þrengt býsna mikið að í kjölfar hrunsins og þurft að herða mjög sultarólarnar víða, fækka blaðamönnum. Við erum á litlu málsvæði með tvö áskriftarblöð þó og ég spyr hvort farið hafi verið sérstaklega yfir áhrif þessa á dagblaðaútgáfu á Íslandi.