144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að svörin við öllum spurningunum séu nei. Það var ekki fjallað um þetta sérstaklega, eins og áhrifin á dagblöð. Og það var ekki fjallað um það í heild sinni ef áform eru um að hækka úr 11% í 14% á næsta ári, það var ekki gert. Í raun var það rauður þráður, alla vega í mínum málflutningi og málflutningi fleiri í nefndinni, að allt væri þetta mjög ómarkvisst.

Til dæmis með laxveiðina, það var ekkert skoðað sérstaklega en talað var um það. Það var talað um hvort ekki væri skynsamlegt að koma með virðisaukaskatt eða leigu á vissum eignum, sem laxveiði mundi þá falla undir, undir virðisaukaskatt. Það er það sem ég sakna í allri þessari umfjöllun að það vantar bara að fara í saumana á þessu miklu betur og þetta er ekkert einfalt.

Ég segi: Ég er spenntur fyrir einu þrepi. Ég er ekki á þessum tímapunkti reiðubúinn að segja: Ég bara styð það heils hugar. Ég þarf að sjá það allt saman. Vissulega voru kynnt fyrir nefndinni mjög sterk sjónarmið fyrir því að fullkomin einföldun væri bara rosa góð, en þá þarf, eins og ég hef farið yfir áður, mjög margt annað að fylgja með, mjög margt annað sem hangir á spýtunni í því.

Okkur voru líka kynnt þau sjónarmið að virðisaukaskattskerfið í Lúxemborg væri sallafínt og þar eru fimm þrep í virðisaukaskatti. Þegar við horfum á 7% virka þau eins og einhvers konar styrkur fyrir bókaútgáfu, vegna þess að innskatturinn kemur á móti. Um leið og bókaútgáfan fer í hærri tölu er hún allt í einu farin að borga skatt, þannig að það þarf að skoða þetta allt sama. Núll prósent hentar ekkert öllum, út af því að þá þurfa menn að borga innskattinn.

Á þessu eru því mjög margar hliðar og ég sakna þess að um þær hafi ekki verið fjallað og ég kalla eftir því að fjallað sé um þær.