144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hlý orð í garð minna bókmenntafræðilegu hæfileika, skulum við segja, (Gripið fram í.) bókmenntarýni. Það er kannski ekki skrýtið að það séu engir framsóknarmenn í salnum, flokksmenn hv. fyrrverandi þingmanns Guðna Ágústssonar, sem fagnaði miklum sigri þegar matarskatturinn var á sínum tíma lækkaður í 7% og sagði við það tækifæri, þegar málinu var fagnað á sínum tíma: „Nú munu allir kokkar í eldhúsum landsins gleðjast. Allir kokkar í eldhúsum landsins gleðjast í boði Framsóknar 2007.“ En þeir eru ekki glaðir lengur, ímynda ég mér. Ég veit ekki hvað hv. fyrrverandi þingmaður Guðni Ágústsson segir um flokksmenn sína, sem eru því miður ekki hér til að eiga þessa umræðu. Maður hlýtur að sjálfsögðu að velta því fyrir sér hvort hv. þingmenn Framsóknarflokks voru meðvitaðir um að þeir væru kannski þátttakendur í leikriti sem búið var að skrifa fyrir þá. Kannski töldu þeir sig vera að heyja hér mikla baráttu fyrir að minnka þessa skattahækkun á heimilin í landinu úr 11 milljörðum í 8 milljarða og telja sig hafa unnið ákveðinn sigur. En auðvitað hljóta grunsemdir að vakna þegar maður sér tillöguna nánast skrifaða í fjárlagafrumvarpið og maður hlýtur að velta því fyrir sér að unnið hafi verið með 11%. Það var búið að reikna út þá sviðsmynd á sínum tíma en það er alltaf gott að eiga eitthvað til að geta gefið eitthvað eftir. Er það ekki það sem ráðherrann hefur hugsað á sínum tíma þegar frumvarpið var lagt fram, án þess að ég geti nú lesið í rýni hans?

Hvað varðar 0% flækir það málin vissulega að menn geta, samkvæmt því sem ég hef heyrt frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd, með 7% líka sótt um endurgreiðslu á kostnaði sem ekki er hægt með 0%, þannig að það er spurning hverju sú tillaga, sem hljómar vissulega vel í mín eyru, mundi skila nákvæmlega (Forseti hringir.) fyrir bókaútgáfuna. Það þyrftum við að skoða.