144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talar aldrei myrkt né nykrað og það er sannkölluð ánægja að fá að beita sömu tækni á ræður hennar og hún endranær við sín fyrri fræði, þ.e. rýnitækni bókmenntafræðinnar.

En af því hv. þingmaður gerði hér einn fyrrverandi félaga okkar að umræðuefni, sem þá var hv. þm. Guðni Ágústsson, hygg ég að ég geti fullyrt það fyrir mína hönd og annarra vandamanna hans að hann liggi nú heima við sjónvarpsviðtækið hágrátandi og þau tár séu bæði [Hlátur í þingsal.] höfug og heit sem hrynja af hvörmum hans. Ég held að svo sé honum brugðið við þann viðsnúning sem hefur orðið á Framsóknarflokknum varðandi matarskattinn og er hans sárt saknað úr þessari umræðu.

Hins vegar vil ég segja að ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að skoða hvort ekki sé tæknilega hægt að fella bókaskattinn niður í 0%. Það er af sérstökum ástæðum sem ég hef ekki tóm til þess að rekja hér, (Forseti hringir.) en ég þakka hv. þingmanni alla vega fyrir jákvæð viðbrögð við málaleitan minni fyrir hönd íslenskrar bókaþjóðar.