144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:22]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins til að ljúka umræðunni um virðisaukaskatt á bækur og læsi þá skulum við ekki gleyma því að Suður-Kórea er ein þeirra þjóða sem stendur sig hvað best í lesskilningi í hinni margfrægu PISA-könnun — við erum alltaf að tala um PISA og að við verðum að standa okkur betur í PISA — er með 0% virðisaukaskatt á bókum. Ég verð að segja, af því hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar er staddur hér, að það er þörf á því að nefndin skoði þessi mál betur milli 2. og 3. umr. og teikni upp sviðsmyndir, sérstaklega hvað varðar bækur og tónlist, því að með þessu er verið að stíga skref sem gætu haft mjög slæm áhrif á stöðu menningar og skapandi greina og á læsi.

Hvað varðar Ríkisútvarpið, sem hv. þm. Helgi Hjörvar spyr hér um, þá finnst mér það óskiljanlegt að ráðist sé í að lækka útvarpsgjaldið. Fallist er á að það renni óskipt til Ríkisútvarpsins sem er mikilvægt og er krafa okkar eftir að ríkisstjórnin breytti lögum um Ríkisútvarpið sem voru samþykkt árið 2013 (Forseti hringir.) og áttu að tryggja að útvarpsgjaldið rynni óskert til Ríkisútvarpsins, en þá er valin sú leið að lækka það til þess að skerða rekstrargrundvöll þess. Stjórn (Forseti hringir.) Ríkisútvarpsins, skipuð fulltrúum allra flokka, hefur nú einróma andmælt þessari aðför að Ríkisútvarpinu.